Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Dominique Plédel Jónsson byrjaði að bjóða upp á vínnámskeið hérlendis 2005 og árið eftir stofnaði hún Vínskólann (vinskolinn.is). Fyrir tæplega sjö árum dró hún sig í hlé vegna aldurs og veikinda eiginmannsins og Eymar Plédel Jónsson sonur þeirra tók við rekstrinum. „Ég breytti rekstrarforminu, er ekki með fyrirframákveðin námskeið eins og mamma var með heldur er ég til taks þegar kallið kemur og eftirspurnin er mikil sem fyrr,“ segir hann.
Vínskólinn varð til þegar Dominique missti vinnuna. „Hún vann hjá víninnflutningsfyrirtæki og byrjaði þá að halda vínnámskeið í tengslum við vinnuna 2005,“ rifjar Eymar upp. Hún hafi strax náð vel til fólks, en ekki hafi liðið á löngu þar til fyrirtækið varð gjaldþrota og hún allt í einu atvinnulaus. „Þá tók hún ákvörðun um að stofna Vínskólann í þeim tilgangi að efla vínmenningu á Íslandi.“
Móðirin frumkvöðull
Eymar segir móður sína hafa boðið upp á mjög metnaðarfull vínnámskeið og ferðir til vínsvæða erlendis. „Á þessum árum var ekki mikil vínmenning hérna, fólk fékk sér vín til að drekka en ekki til að smakka og njóta. Hún var mikill frumkvöðull á þessu sviði hérlendis, vildi kenna Íslendingum að smakka vín en ekki bara að drekka það.“ Hún hafi haldið settu marki alla tíð og lagt sitt af mörkum til að bæta vínmenninguna. Engu að síður hafi nýja fyrirkomulagið reynst betra enda aðstæður aðrar nú en áður.
„Þeir sem hafa virkilegan áhuga á því að fræðast um vín, hvort sem það eru einstaklingar, vina- eða vinnuhópar, hafa greiðan aðgang að okkur og hafa samband þegar þeim best hentar og við sinnum óskum þeirra, útbúum klæðskerasaumuð námskeið,“ segir Eymar. Þannig fái allir það sem þeir vilja, hvort sem um hvítvíns- eða rauðvínsnámskeið er að ræða, pörun á mat og víni, ostum og víni eða hvað sem er. „Allt er opið í þessu efni,“ leggur hann áherslu á. „Við erum með einstaklinga og hópa sem eru nánast í áskrift hjá okkur, þar sem hver hópur pantar mismunandi námskeið einu sinni til tvisvar á ári.“
Dominique er frönsk og Eymar ólst upp við franska vínmenningu. „Hún vann í frönsku utanríkisþjónustunni og við fluttum oft á milli sendiráða,“ rifjar hann upp. „Yfirleitt var vín með matnum og ég fékk mjög ungur að smakka smádreitil í glasi. Þannig þróaðist fyrst áhugi og síðan ástríða fyrir víni.“
Eymar er þriggja barna faðir, nemi í viðskiptafræði og í fullu starfi sem forstöðumaður vörustýringar hjá Póstinum. „Launin borga reikningana og gera mér mögulegt að eltast við ástríðuna.“
„Listin að smakka“ kallaðist fyrsta námskeið Dominique og Eymar segir það hafa verið vinsælast alla tíð. „Það hefur verið kjarninn í starfsemi Vínskólans frá byrjun enda hefur tilgangurinn alltaf verið að kenna fólki að smakka. Til að njóta vínsins þarf að hafa ákveðin atriði í huga.“