Hugarró Fyrirhugað hótel er hringlaga byggingin á myndinni. Það verður skammt frá gamla Botnsskála í Hvalfirði.
Hugarró Fyrirhugað hótel er hringlaga byggingin á myndinni. Það verður skammt frá gamla Botnsskála í Hvalfirði. — Teikning/Architectuurstudio SKA
Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar hefur samþykkt að breyting á aðalskipulagi vegna jarðarinnar Litla-Botnslands 1 verði send Skipulagsstofnun til afgreiðslu. Á jörðinni er fyrirhuguð uppbygging á hóteli og ferðaþjónustu „þar sem áhersla er lögð á…

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar hefur samþykkt að breyting á aðalskipulagi vegna jarðarinnar Litla-Botnslands 1 verði send Skipulagsstofnun til afgreiðslu. Á jörðinni er fyrirhuguð uppbygging á hóteli og ferðaþjónustu „þar sem áhersla er lögð á náttúruferðamennsku samhliða skógrækt“, eins og það er orðað í bókun sveitarfélagsins.

Morgunblaðið greindi frá þessum áformum í febrúar. Erlendir aðilar standa að fyrirhugaðri uppbyggingu, sem er nokkuð stórtæk; gert er ráð fyrir gistingu fyrir allt að 200 gesti á hóteli og í minni gestahúsum ásamt veitingarekstri, náttúruböðum, útivist og annarri ferðatengdri þjónustu. Hótelið kallast Hugarró Nature Retreat og verður fjögurra stjörnu. Þar verða 32 herbergi og 25 hringlaga gestahús sem geta snúist með gangi sólarinnar. Lagt er upp með að gestir nái „djúpri tengingu“ við náttúruna.

Litla-Botnsland 1 er um 12 hektara óbyggð jörð skammt inn af gamla Botnsskála. Heildarbyggingarmagn svæðisins verður allt að fimm þúsund fermetrar.

Fjölmargar athugasemdir bárust í umsagnarferli en fljótt á litið virðist lítið tillit hafa verið tekið til þeirra. Ítrekaðri fyrirspurn Morgunblaðsins um þetta var ekki svarað. Náttúruverndarstofnun telur að fuglalíf verði fyrir töluverðum áhrifum, til að mynda tegundirnar þúfutittlingur, stelkur, jaðrakan, spói og heiðlóa. Þá bendir stofnunin á að birkiskógar njóti sérstakrar verndar, en hótelið á að rísa í miðjum slíkum.

Skýringarmyndir villandi

Í öðrum athugasemdum kemur fram að í dalnum sé að mestu ósnortin náttúrufegurð og ljóst sé að fyrirhuguð uppbygging muni hafa gífurleg áhrif á upplifun fólks á svæðinu. Jafnframt segir að skýringarmyndir í kynningargögnum séu villandi og óljóst að kjörnir fulltrúar í skipulagsnefnd og sveitarstjórn geri sér grein fyrir umfangi áformanna. „Þetta er ekki eitt lítið sætt hringhús með malarstígum fyrir golfbíla til að ferja fólk á milli,“ segir í einni athugasemd.

Eigendur Stóra-Botns, sem er við hlið landskikans sem á að byggja á, eru mjög ósáttir við hóteluppbyggingu, þar sem þeir segja að ekkert hafi verið rætt við þá. Segir í athugasemdum þeirra í 18 liðum að við málsmeðferð Hvalfjarðarsveitar hafi ekki verið farið eftir stjórnsýslulögum. Telja þeir jafnframt að stórfelldar hótelframkvæmdir muni stórauka almannahættu á svæðinu, sérstaklega að vetri til. Í svari við þeirri athugasemd segir að nauðsynlegt sé að auka öryggi ferðafólks og sumarhúsaeigenda, meðal annars með betri þjónustu svo sem neysluvatni, rafmagni, net- og símasambandi. „Hættan er þegar til staðar,“ segir í svari sveitarfélagsins.

Hóteleigandi borgaði brúsann

Lítið er gefið fyrir athugasemdir nágrannanna um skort á samráði; framkvæmdaaðilinn ætli til að mynda að skipuleggja stórfelldar hópferðir á svæði þeirra. „Samráð er haft með lögbundnu skipulagsferli,“ segja ráðamenn í Hvalfjarðarsveit.

Eigendur Stóra-Botns segja að skipulagstillagan sé einhliða og hagsmunir framkvæmdaraðila séu hafðir að leiðarljósi en ekki náttúruvernd. „Sveitarfélaginu er heimilt að vinna breytingu á aðalskipulagi sem landeigandi/framkvæmdaraðili ber kostnað af,“ segir í svari Hvalfjarðarsveitar.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon