Flóki Larsen
floki@mbl.is
Kex, sem var áður með starfsemi á Skúlagötu í Reykjavík, hefur nú verið opnað í Hafnarstræti en hér ekki um að ræða götuna í miðbænum heldur gamla kaupfélagshúsið á Þingeyri. Þar var Kex-hótel opnað fyrstu helgina í júní, en nánar var fjallað um hótelið í Morgunblaðinu 5. maí.
Kristinn Vilbergsson eigandi Kex segir sumarið hafa farið ljómandi vel af stað. „Við höfum hlotið afskaplega góðar viðtökur og finnum fyrir miklum velvilja og jákvæðni frá bæjarbúum og Vestfirðingum almennt,“ segir Kristinn.
Hann segir talsverða traffík vera af erlendum ferðamönnum en Íslendingar sæki hótelið líka, ýmist til að heimsækja sitt fólk á Þingeyri eða til að njóta þess sem Dýrafjörður hefur upp á að bjóða.
Kristinn segir Kex leggja áherslu á að auka viðburðahald á Þingeyri, ýmislegt sé í gangi um helgar í sumar. „Við höfum verið með gestakokka, listsýningar og tónlistarviðburði. Kristinn Soð var hjá okkur síðustu helgina í júní og fyllti staðinn bæði kvöldin. Það voru Dýrafjarðardagar um helgina með fullt af viðburðum um allan bæ og mikið líf og fjör,“ segir hann og bætir við að fleiri viðburðir séu fram undan hjá Kex.
„Okkur langar til að hafa eitthvað í gangi um helgar. Gestir okkar geta þá gist nokkrar nætur og notið þess sem Þingeyri hefur upp á að bjóða. Þeir geta borðað góðan mat hjá okkur, kíkt í vöfflu og kaffi í Simbahöllina, spilað golf á flotta golfvellinum í Dýrafirði og notið dýrðarinnar á Vestfjörðum. Ég held að það séu mikil tækifæri í ferðaþjónustunni hér og viðbrögðin sem við fáum staðfesta það.“
Michelin-kokkur og ADHD
„Síðustu helgina í júlí erum við með Veisluna – matarviðburð þar sem Michelin-kokkurinn Gunnar Karl frá Dill og Sveppi elda fyrir gesti. Í ágúst koma svo vinir okkar frá Hosiló og verða með matarviðburð, Hljómsveitin ADHD verður líka með tónleika í félagsheimilinu svo eitthvað sé nefnt,“ segir Kristinn.
Hann er bjartsýnn á framhaldið og segir nóg eftir í því að þróa húsnæðið. Mikið hafi gengið á í framkvæmdum í aðdraganda opnunar Kex. Þær muni hins vegar halda áfram eftir sumarvertíðina.