Alþjóðlegar rannsóknir á prótínum í mannslíkamanum hafa leitt í ljós nýjar upplýsingar um öldrun og hvernig sé hægt að greina og meðhöndla taugahrörnunarsjúkdóma á borð við alzheimer og parkinson.
Fjallað er um þetta í breska blaðinu Financial Times. Haft er eftir bandaríska milljarðamæringnum Bill Gates, sem fjármagnaði þessar rannsóknir að hluta, að þær hafi fært mannkynið nær þeim degi þegar alzheimer-greining jafngildi ekki lengur dauðadómi.
Niðurstöður rannsóknanna voru birtar í nokkrum greinum í tímaritinu Nature Medicine í vikunni en í þeim voru upplýsingar í stórum líffræðilegum gagnasöfnum greindar með hjálp gervigreindar með það að markmiði að greina og meðhöndla sjúkdóma sem nú eru illlæknanlegir.
Vísindamenn notuðu gögnin til að bera kennsl á ákveðin prótín, eða svokölluð lífmerki, tengd erfðabreytileika sem vitað er að eykur hættu á alzheimer-sjúkdómi.
Þeir rannsökuðu einnig hvernig magn prótína, sem tengjast vitrænni virkni, breytist með aldrinum og fundu mynstur í prótínmagni sem tengist ýmsum taugahrörnunareinkennum.
„Það áhugaverðasta er að mynstur prótínfrávika, sem segja fyrir um taugahrörnunarsjúkdóma, veitir nýja innsýn í líffræðilega þróun þessara sjúkdóma,“ hefur Financial Times eftir Charles Marshall, prófessor í taugasjúkdómafræði við Queen Mary-háskólann í Lundúnum. „Það opnar leiðir til að þróa ný lyf sem gætu á endanum leitt til nýrra læknismeðferða.“
Sérstöku átaki í rannsóknum á taugahrörnun var hleypt af stokkunum árið 2023 og koma að þeim ýmsar rannsóknarstofnanir með stuðningi lyfjafyrirtækisins Johnson & Johnson og Gates Ventures, stofnunar Bills Gates.
Sívaxandi þekking
FT hefur eftir Simon Lovestone, yfirmanni alþjóðlegrar rannsóknardeildar Johnson & Johnson, að þekking á taugahrörnun fari nú hratt vaxandi. Byggt hafi verið upp gagnasafn sem inniheldur um 240 milljónir prótínmælinga og um 35 þúsund lífsýni frá 23 hópum í Bandaríkjunum og Bretlandi auk annarra upplýsinga sem eru aðgengilegar og opnar á netinu.
Talið er að yfir 50 milljónir manna um allan heim þjáist af taugahrörnunarsjúkdómum og því er spáð að sú tala muni tvöfaldast um miðja öldina eftir því sem mannkynið eldist. Tilfellum alzheimer, sem er algengasta orsök elliglapa, og parkinson, sem hefur áhrif á hreyfigetu, hefur einkum fjölgað mikið borið saman við aðra sjúkdóma.