Svalbrúsi (Gavia adamsii), hánorræn erlend fuglategund, hefur að undanförnu haldið til á Borgarfirði eystra og Njarðvík, þar litlu norðar. Erlendir fuglaskoðarar urðu hans fyrst varir þar 8. júlí. Þetta mun vera í fimmta skipti frá upphafi skráningar sem svalbrúsi sést við Íslandsstrendur. Árið 2011 sást einn við Heimaey í Vestmannaeyjum, ári síðar var annar á Fáskrúðsfirði, árið 2020 var sá þriðji í Njarðvík syðra og árið 2021 sá fjórði við Kópasker.
Svalbrúsi á varpheimkynni meðfram íshafsströnd Rússlands, Norður-Kanada og Alaska. Hann er af ættbálki sundkafara en tilheyrir þaðan brúsaættinni. Sú var á liðnum jarðsöguöldum afar fjölskrúðug en hefur nú til dags einungis á að skipa fimm tegundum í einni ættkvísl. Þær eiga allar heimkynni sín á norðurhveli jarðar og eru auk svalbrúsans himbrimi, glitbrúsi, hafbrúsi og lómur. Svalbrúsinn er þeirra stærstur. Annað það helsta sem greinir hann frá himbrima er litur goggsins, sem er beinhvítur eða gulleitur. Auk þess er svalbrúsinn háleitari.
Af þessum fjórum brúsategundum verpa einungis tvær hér á landi, eftir því sem best er vitað, þ.e.a.s. himbrimi og lómur.