Sjöfn Þórðardóttir
sjofn@mbl.is
Í dag situr Rafn í dómgæslu- og keppnisnefnd sem ritari og er virkur í starfi sem Klúbbur matreiðslumeistara stendur fyrir, hvort sem það er hérlendis sem og erlendis. „Nýverið tók ég sæti í stjórn NKF, Norðurlandasambands matreiðslumeistara, fyrir hönd Íslands ásamt Þóri Erlingssyni. Sjálfur hef ég verið virkur við fagið síðan ég hóf störf sem nemi í Perlunni 1993. Starfinu hef ég sinnt af mikilli alúð, enda haft gaman af matargerð og þeim breytingum sem átt hafa sér stað síðan í þá daga. Undanfarin ár hef ég haft sérstaklega gaman af því að vera innan um kokkalandsliðið og þá frábæru einstaklinga sem fórna frítíma sínum til þess að sýna umheiminum hversu frábært fagfólk landið okkar hefur að geyma,“ segir Rafn með bros á vör.
Kokkalandsliðið er um þessar mundir í sumarfríi frá æfingum sem byrjuðu fyrr á árinu. „Samkvæmt því sem ég veit ganga æfingar mjög vel. Æfingarnar eru mikilvægur liður í undirbúningi fyrir þátttöku okkar á heimsmeistaramótinu sem fram fer á næsta ári, en eins og komið hefur fram í fjölmiðlum hefur íslenska kokkalandsliðið verið meðal þeirra efstu á stórmótum síðustu ára,“ segir Rafn, sem er orðinn mjög spenntur fyrir næsta móti.
Dálæti á matargerð
Rafn hefur mikið dálæti á matargerð sjálfur og finnst fátt skemmtilegra en að grilla. „Ég uni því afar vel að grilla á bæði kola- og gasgrilli í bland við aðrar aðferðir þegar kemur að matseld á heimilinu. Ég er ekki bundinn af því að grilla bara á sumrin, hér á heimili okkar Herdísar er grillað allan ársins hring, eða öllu heldur þegar okkur langar.
Það sem mig langar til að bjóða lesendum Morgunblaðsins er einn af mínum uppáhaldsréttum, réttur sem konan mín gerði handa mér fljótlega eftir að við byrjum að stinga saman nefjum. Rétturinn samanstendur af maríneruðum laxastykkjum sem eru grilluð og sett í hamborgarabrauð með mangósalsa, avókadó, hvítlauksmajó, káli og tómötum, borin fram með ofnbökuðum kartöflubátum. Rétturinn er einfaldur og hæfir öllum þeim sem vilja tilbreytingu,“ bætir Rafn við. Einnig býður Rafn lesendum upp á uppskrift að sumardrykk Rögnu mágkonu sinnar sem hann segir vera ómissandi með þessum laxaborgurum.
Grillaður laxaborgari með mangósalsa og ristuðu hvítlauks-aioli (fyrir 4)
Grillaður lax
4 laxastykki, 150 g hvert
Marínering
1 dl ostrusósa
2 msk. límónusafi
1 tsk. olía
¼ tsk. engiferduft
1 tsk. hvítlaukssalt
Cayenne-pipar á hnífsoddi eða eftir smekk
Blandið saman öllum hráefnunum í skál, penslið laxinn og látið liggja í um það bil eina klukkustund í maríneringunni.
Fyrir samsetningu
4 stk. hamborgarabrauð að eigin vali
2 stk. límónur
Eldunaraðferð fyrir laxinn
Hitið grillið vel og penslið það með olíu áður en laxinn er settur á. Grillið laxinn á báðum hliðum þar til hann hefur fengið fallegar grillrendur, fyrir þá sem vilja ekki að hann þorni mæli ég með að notaður sé hitamælir og kjarnhitinn fari ekki mikið yfir 52°C. Opnið hamborgarabrauðin og hitið á grillinu.
Mangósalsa
1 stórt mangó
½ meðalstór rauðlaukur
½ rauð paprika
2 tómatar
½ rautt chili, má sleppa
½ dl ferskt kóríander, má sleppa
1 tsk. salt
½ límóna, safinn
Cayenne-pipar eftir smekk, má sleppa
Takið kjarnann úr tómötunum og skerið allt hráefni smátt. Blandið saman í skál og geymið í kæli fyrir notkun.
Avókadó
2 stk. meðalstór og rétt þroskuð avókadó
1 tsk. salt
1 límóna, safinn
Skerið avókadó í litla teninga og kryddið til með salti og límónusafa.
Kryddaðir kartöflubátar
Kál að eigin vali
8-12 sneiðar af agúrku
Ristað hvítlauks-aioli
1 hvítlaukur (heill)
1 tsk. Ramslauksolía (Hr. Skov)
½ bolli majónes, ég nota Hellmann’s
1 tsk. hafþyrnisinnep (Hr. Skov)
1 msk. sítrónusafi eða límónusafi úr ferskum ávexti
¼ tsk. sjávarsalt
Svartur pipar eftir smekk. Hitið ofninn í 180°C. Skerið toppinn af hvítlauknum svo það sjáist í hvítlauksgeirana, hann á að vera í heilu lagi. Setjið olíuna í dropatali yfir hvítlaukinn, vefjið inn í álpappír og bakið í 180°C heitum ofninum í 40 mínútur. Kælið því næst hvítlaukinn í um það bil 10 mínútur og kreistið hann úr hýðinu. Því næst er hvítlaukurinn settur í skál og maukaður vel. Blandið majónesinu, sinnepinu og sítrónu-/límónusafanum saman við hvítlaukinn og kryddið til með salti og pipar. Ef til er lítil matvinnsluvél á heimilinu eða töfrasproti er gott að nýta það við þessa framkvæmd. Best er ef hægt er að gera þessa sósu daginn áður svo að hráefnin fái að brjóta sig. Ef ekki er tími til að gera þessa sósu mæli ég með því að fólk kaupi Ramslauks-aioli (Hr. Skov), til dæmis í Kjötbúrinu á Selfossi, Melabúðinni, Sælkerabúðinni á Bitruhálsi eða hjá Reyni bakara, nú eða eitthvað annað sem kemst þessu næst.
Meðlæti
3 bökunarkartöflur
1 tsk. paprikuduft
2 msk. ferskt timjan, saxað smátt, má vera þurrkað
1 msk. salt
½ msk. svartur pipar.
½ dl olía
Hitið ofninn í 180°C. Skerið hverja bökunarkartöflu í átta báta og setjið í plastpoka. Hellið næst olíunni og kryddinu yfir kartöflurnar og lokið pokanum með smá lofti í og hristið þar til að bátarnir eru allir orðnir jafnt kryddaðir. Raðið þeim síðan á bökunarplötu klædda bökunarpappír þannig að bátarnir snúi allir með skinnið niður í plötuna. Það er gert svo að þeir verði allir jafn bakaðir og stökkir. Bakið í um það bil 30-40 mínútur eða þar til þeir hafa fengið á sig fallegan lit.
Samsetning
Að lokum er borgarinn settur saman, aioli á brauðið, kál, agúrka, avókadó, lax, mangósalsa og brauð á toppinn. Berið kartöflur og aioli fram til hliðar við borgarann.
Sumardrykkur Röggu
mágkonu (fyrir 1)
2/3 hluta 7-Up eða Sprite
1/3 hluta perusíder
½ límóna í sneiðum
Fersk mynta
Ísmolar eftir smekk
Blandið hráefninu saman í könnu og hrærið saman. Hellið í viðeigandi glas.