Baksvið
Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Ríflega 370 íbúðir hafa selst á ellefu þéttingarreitum í miðborg Reykjavíkur og nágrenni hennar frá því um haustið 2023. Eru þá meðtaldar íbúðir sem hafa nýverið komið í sölu. Þá hafa selst 108 íbúðir á þessum reitum frá áramótum.
Þetta má lesa úr grafinu hér til hliðar, en ýmist var rætt við söluaðila eða stuðst við upplýsingar af söluvefjum verkefnanna.
Fjallað hefur verið um söluna á þessum reitum í Morgunblaðinu á síðustu misserum. Nú bætast hins vegar við tveir reitir, Laugaborg á Kirkjusandi og Orkureiturinn við Suðurlandsbraut, en þar hafa komið í sölu alls um 270 íbúðir. Þar af eru 65 íbúðir af 68 seldar á A-reit, en það hús kom í sölu í apríl í fyrra. Af þessum 65 seldu íbúðum hafa 23 selst í ár og hafa því samtals 108 íbúðir selst á þessum 11 reitum á þessu ári. Sala á D-reit á Orkureitnum hófst í apríl í ár og hafa nú selst 13 íbúðir á D-reit af alls 133.
Salan hófst í apríl
Þá hafa selst 16 íbúðir af 70 í Laugaborg. Sala á 1. áfanga hófst í apríl og var búið að selja 14 íbúðir af 33 þegar sala íbúða í 2. áfanga hófst í júlí.
Á Grandatorgi hafa selst 10 íbúðir síðan síðast var fjallað um sölu miðborgaríbúða í Morgunblaðinu í byrjun maí. Þá hafa selst sex íbúðir á Heklureit og sitt hvor íbúðin í Borgartúni 24 og í Skipholti 1. Einnig hefur ein íbúð selst á Hlíðarhorni síðan þá, en í 1. áfanga verða 33 íbúðir af alls 195 íbúðum á reitnum fullbyggðum. Óseldar íbúðir á Snorrabraut 62 voru teknar úr sölu, eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu.
Samkvæmt upplýsingum frá fasteignasala hafa 77 íbúðir selst í Vesturvin við Ánanaust og þrjár íbúðir til viðbótar verið endurseldar vegna breyttra aðstæðna. Því er hér miðað við að 80 íbúðir séu seldar eins og í byrjun maí.
Meira framboð i haust
Niðurstaðan er að 416 íbúðir eru óseldar af 788 íbúðum á þessum ellefu þéttingarreitum. Framboðið eykst svo frekar á síðari hluta ársins þegar 47 íbúðir koma í sölu í Bolholti 7-9, en fjölbýlishúsið er við hliðina á Valhöll. Því til viðbótar koma hugsanlega 55 íbúðir í sölu fyrir áramót í Sigtúni 38 og 40 gegnt Grand Hótel. En alls verða 109 íbúðir í sex húsum á þeim þéttingarreit.
Með þessum tveimur reitum hafa verið alls 890 íbúðir í sölu á þessum reitum, en það er til dæmis hér um bil fjöldi íbúða á Hlíðarenda. Miðað við að söluverð hverrar íbúðar sé að jafnaði 80 milljónir, sem er varlega áætlað, er söluverð þessara tæplega 900 íbúða samtals yfir 71 milljarði á núvirði.
Um 600 í viðbót
Framboð nýrra íbúða á þessum reitum eykst verulega þegar næstu áfangar á Heklureitnum og Orkureitnum koma í sölu. Miðað er við að 440 íbúðir verði á Heklureitnum og eiga því um 360 íbúðir eftir að koma í sölu. Á Orkureitnum verða um 436 íbúðir og eiga um 235 íbúðir eftir að koma í sölu. Samanlagt 600 íbúðir á þessum tveimur reitum.