Útlát Starfshópar í borgarkerfinu eru líklega vel á annað hundrað ef fastanefndir og borgarfyrirtæki eru talin með.
Útlát Starfshópar í borgarkerfinu eru líklega vel á annað hundrað ef fastanefndir og borgarfyrirtæki eru talin með.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Endalausar vangaveltur í ótal starfshópum borgarinnar skila takmörkuðum árangri því vinstri lausnir virka ekki.

Kjartan Magnússon

Hjá Reykjavíkurborg er starfandi 91 vinnuhópur samkvæmt yfirliti sem lagt var fram á fundi borgarráðs 10. júlí sl. 56 hópar hafa verið skipaðir af borgarstjóra, borgarritara og miðlægri stjórnsýslu en 35 af sviðsstjórum.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu eftir umræddu yfirliti í nóvember sl. og tók því næstum átta mánuði að telja alla hópana og svara fyrirspurninni. Það bendir til þess að enginn í borgarkerfinu hafi haft yfirsýn yfir þá. Í góðri stjórnsýslu væri yfirsýnin stöðug og yfirlit yfir hópana og stöðu þeirra alltaf aðgengilegt.

Yfirlitið er þó ekki tæmandi, því augljóst er að þar vantar hópa sem eru eða voru starfandi á tímabilinu. Spurningin er sú hversu marga hópa og málefni vantar á yfirlitið.

Þá er ekki gerð grein fyrir starfshópum innan fyrirtækja borgarinnar, sem hafa með höndum marga mikilvæga málaflokka, t.d. húsnæðismál, orkumál, hafnarmál og almenningssamgöngur. Þessi fyrirtæki eru auðvitað hluti af borgarkerfinu og væri því æskilegt að sjá hvaða hópar eru þar og hvaða málefni þeir fjalla um.

Starfshópur eða svefnhópur?

Í samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar er kveðið á um að hægt sé að kjósa nefndir til að vinna að einstökum afmörkuðum verkefnum. Voru þær löngum kallaðar ad-hoc-nefndir til aðgreiningar frá fastanefndum. Smám saman fékk slíkt nefndastarf á sig einhvers konar óorð, sennilega vegna þess að ýmsir stjórnmálamenn voru gjarnir á að vísa málum til nefndar í því skyni að þvæla þau eða svæfa. Þegar nefndir höfðu fengið á sig óorð af þessum sökum datt einhverjum stjórnmálamönnum það snjallræði í hug að finna þeim ný heiti. Ekki mátti nú lengur kalla þær nefndir heldur starfshópa, verkhópa, vinnuhópa, stýrihópa, spretthópa og ég veit ekki hvað. Þrátt fyrir fín nöfn er kjaftæðið í öllum þessum hópum þó síst minna en í gömlu nefndunum.

Starfshópar í borgarkerfinu eru líklega vel á annað hundrað talsins ef fastanefndir og borgarfyrirtæki eru talin með. Kostnaðurinn við slíkt nefndakerfi er mikill, enda eru fundirnir margir og fundarmenn flestir á góðum launum. Það væri þarft verk að reikna út kostnað við allt þetta fundahald og meta hvaða árangri það skilar í raun.

Skipun starfshópa hjá Reykjavíkurborg er ómarkviss og oft er tilgangurinn óljós. Auðvelt væri að skerpa á hlutverki margra starfshópa og sameina einhverja þeirra. Til dæmis er varla nauðsynlegt að nokkrir starfshópar fjalli samtímis um sama málaflokkinn, t.d. húsnæðismál eða viðhaldsmál.

Heilt kerfi í kerfinu

Starfshópar í borgarkerfinu hafa aldrei verið fleiri og eru þeir í raun heilt kerfi í kerfinu. Eðlilegt er að spurt sé hvaða árangri þeir skili. Stuðla þeir að lausn mála eða auka þeir jafnvel enn frekar á flækjustigið, sem er nú þegar allt of mikið í borgarkerfinu?

Oft virðast starfshópar Reykjavíkurborgar gegna því hlutverki að taka við málum sem meirihluti borgarstjórnar treystir sér ekki til að leysa, og tefja þau árum og jafnvel áratugum saman. Þá er sagt að viðkomandi mál sé til meðferðar í starfshópi og beðið sé eftir niðurstöðu hans. Á meðan kaupir meirihlutinn sér frið með því að vísa í að hópur sé að störfum.

Dæmi um þetta eru starfshópar um málefni íþróttafélaga, sem stundum starfa árum saman án mikils árangurs. Þá er nú að störfum stýrihópur um málefni Viðeyjar þrátt fyrir að nokkrir slíkir hópar hafi áður fjallað um eyna án þess að mikið hafi gerst í málefnum hennar. En í lok kjörtímabilsins verður auðvitað hægt að segja að margir fundir hafi verið haldnir um málið.

Aðgerðir í stað orða

Reykjavíkurborg glímir við mikinn vanda í fjármálum, skólamálum, skipulagsmálum og samgöngumálum svo eitthvað sé nefnt. Það vantar ekki að fjöldi starfshópa hefur setið að endalausu spjalli um þessa málaflokka árum saman, með ærnum tilkostnaði fyrir skattgreiðendur. Þrátt fyrir mikið mas sígur þó jafnt og þétt á ógæfuhliðina vegna þess að vinstri lausnir virka ekki. Þörf er á miklum umbótum hjá Reykjavíkurborg og þær verða best tryggðar með því að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Kjartan Magnússon