Kristján Jónsson
kris@mbl.is
„Góðu fréttirnar í þessu eru þær að mest hraunflæði er í austurátt. Það er mjög jákvætt,“ segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði, í samtali við Morgunblaðið um nýjasta eldgosið á Reykjanesskaganum. Segir hann gosið það líkt fyrri gosum á svæðinu að nánast sé um endurtekið efni að ræða.
„Þetta er mjög hefðbundið Sundhnúkagos og byrjaði rétt sunnan við Stóra-Skógfell. Gossprungan var mjög stutt í upphafi en síðan lengdist hún til norðurs og suðurs. Önnur sprunga bættist við og á þessum tímapunkti gæti það bent til þess að kvikan sem kom fyrst upp hafi verið gömul kvika sem komst af stað aftur,“ segir Þorvaldur en hann átti allt eins von á gosi í júlí.
„Hraðinn á landrisinu í júní og inn í júlí benti til þess að eitthvað myndi gerast frá miðjum júlí og fram í miðjan ágúst. Um leið og komið var fram í miðjan júlí þá gaus og því stóðust þessar vangaveltur. Miðað við hraðann á landrisinu, og magn sem safnaðist saman fyrir síðustu gos, þá kom þetta ekki á óvart.“
Gæti orðið síðasta gosið
Nokkuð hefur verið rætt og ritað um að goshrinunni fari að ljúka í Sundhnúkagígaröðinni en gosið sem hófst aðfaranótt 16. júlí er það tólfta í röðinni frá því fyrst gaus við Fagradalsfjall árið 2021. Þorvaldur segir ólíklegt að mikið muni gerast til viðbótar miðað við aðstæður en tekur skýrt fram að ekki sé hægt að slá neinu föstu.
„Innflæðið er orðið mjög hægt að neðan og á mörkunum að þetta geti haldið áfram með þessu flæði sem er í gangi. Ekki má mikið draga úr innflæðinu og þá stoppar þetta alveg. Mörg teikn eru á lofti um að þetta gæti orðið síðasta gosið á þessu svæði en auðvitað gæti komið eitthvað smávegis í viðbót.“