Egill Aaron Ægisson
egillaaron@mbl.is
Á fimmta hundrað eldinga mældust í gær á norðvesturfjórðungi landsins. Þrjár rafmagnslínur slógu út vegna eldinganna.
Fyrstu eldingunum laust niður klukkan 7.41 við Húsafell en virknin breiddist fljótlega til norðvesturs til Sælingsdals, Hrútafjarðar, Strandasýslu og alla leið til Önundarfjarðar á Vestfjörðum.
Um klukkan 10 var eldingavirkni orðin áberandi yfir Reykhólasveit og síðar, um hádegisbil, á Súðavík og Ísafirði.
Töluvert þrumuveður
Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir eldingarnar hafa orðið vegna óstöðugleika í loftinu.
Hann segir síðustu eldingarnar hafa mælst á landi á Vestfjörðum um klukkan 13 en að þrumuveðrið hafi svo haldið áfram vestur og út á haf.
Þar hafi því svo lokið á sjötta tímanum í gærkvöldi.
„Þetta stóð sem betur fer ekki lengur en það því þetta var töluvert þrumuveður,“ segir Haraldur í samtali við Morgunblaðið.
Þrjár línur slógu sem fyrr segir út sökum eldinganna á Norðvesturlandi.
Í færslu Landsnets á Facebook sagði að enginn notandi væri þó rafmagnslaus og að Vestfirðir væru keyrðir á varaafli.
Voru rafmagnslínurnar skoðaðar í kjölfarið af starfsmönnum Landsnets.
Eftir að engar sjáanlegar skemmdir höfðu fundist á þeim voru þær settar í rekstur á ný.