Síðustu daga hafa mikil flóð orðið í New Jersey og New York í norðausturhluta Bandaríkjanna og mega íbúar eiga von á frekara tjóni af sökum úrkomu. Bjarga þurfti nokkur hundruð manns úr bílum eftir mikil flóð á mánudag en tveir létust í New Jersey þegar ökutæki þeirra skolaðist burt og viðbragðsaðilar gátu ekki bjargað þeim tímanlega.
Flóðaviðvörun er enn í gildi í New York og suður til Virginíuríkis en mikil úrkoma hefur verið þar síðustu daga. Búist er við frekari rigningu á nærliggjandi svæðum á næstu dögum. Bærinn Newark Valley í suðurhluta New York-ríkis hefur orðið langverst úti í flóðinu. Þar eyðilögðust að minnsta kosti 25 heimili og fjöldi vega.
Í New York sögðu viðbragðsaðilar íbúum á láglendum svæðum og í kjallaraíbúðum að leita á staði sem stæðu hærra. Gruggugt rigningarvatn streymdi niður aðalgötur Manhattan um það leyti sem fólk var á leið heim úr vinnu og leituðu margir skjóls undir byggingum og í strætóstöðvum.
Miklar tafir urðu á samgöngum í New York en vatn flæddi um allt neðanjarðarlestarkerfið á mánudag. Farþegar deildu margir myndum á samfélagsmiðlum sem sýndu vatn streyma fram hjá miðasöluhliðum og inn á rafmagnaða teinana. Á Manhattan sátu tugir farþega fastir í lest í dágóðan tíma eftir að vatn flæddi inn á stöðina.
Flóðin og úrkoman hafa haft áhrif á flugsamgöngur og hefur tugum flugferða frá ríkinu verið aflýst. Íbúar New York-ríkis eru þó ekki óvanir öfgum í veðri. Árið 2012 létust 40 og um 300 heimili eyðilögðust í fellibylnum Sandy. Zohran Mamdani, frambjóðandi til borgarstjóra í borginni, skrifaði á samfélagsmiðlum að flóðin sýndu að „bæta þyrfti innviði okkar vegna hins nýja veruleika í loftslagsmálum“.