Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Skýrsla Ríkisendurskoðunar um mönnun og flæði sjúklinga sem njóta þjónustu Landspítalans er afar þörf. Vakin er athygli á staðreyndum sem margir þekkja og áhyggjur hafa verið af í langan tíma. Þetta segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands, í samtali við Morgunblaðið.
Skýrsla Ríkisendurskoðunar þar sem staða mála á Landspítala er kortlögð hefur víða verið rædd að undanförnu. Lausatök og úrræðaleysi hafa, að mati skýrsluhöfunda, verið áberandi í viðbrögðum stjórnenda sjúkrahússins. Í mikilvægum fagstéttum vantar fólk til starfa en þjónustu er gjarnan haldið uppi með yfirvinnu starfsfólks og tilfallandi úrræðum, svo sem framlagi ófaglærðra, sérhæfðra starfsmanna. Nefna má að á sl. ári voru 397 stöðugildi sjúkraliða ekki mönnuð svo og 50 stöður hjúkrunarfræðinga, 30 lækna vantaði og 14 ljósmæður.
Varað við ástandi árum saman
Viðbrögð við þessum staðreyndum er yfirlýsing sem formenn félaga lækna, hjúkrunarfræðinga, ljósmæðra og sjúkraliða, allt konur, sendu frá sér nú í vikubyrjun. Þar segir að varað hafi verið við ástandinu árum saman. Nú sé skráð í opinberri skýrslu að heilbrigðisþjónusta landsins sé rekin með óásættanlegri mönnun, brotakenndri stjórnsýslu og óraunhæfri fjármögnun. Formennirnir krefjast því þess að raunhæf og tímasett aðgerðaáætlun til úrbóta verði sett fram fyrir miðjan september næstkomandi. Þar sé mikilvægt að setja mönnunarmál í forgang, það er að nægur fjöldi fagfólks sé á hverjum pósti. Allt þurfi þetta að gerast á faglegum forsendum.
„Við munum ekki samþykkja að ábyrgðin sé færð yfir á fagfólkið sjálft aftur. Nú þarf pólitíska forystu. Og hana þarf að sýna í verki,“ segja formenn fagfélaganna.
Vandinn hefur safnast upp
Hjá Krabbameinsfélagi Íslands hafa verið unnar spár bæði um fjölgun krabbameinstilvika og fjölgun lifenda, það er þeirra sem lifa eftir að hafa greinst með krabbamein. Ný spá var kynnt í fyrra í grein í Læknablaðinu, Spáð er mikilli fjölgun krabbameinstilvika, sem tengist fyrst og fremst því að þjóðin er að eldast hratt. Búist er við að krabbameinstilvik verði um 3.000 talsins árið 2035 en eru nú um 2.000. Halla segir svona upplýsingar forsendu þess að hægt sé að bregðast við í tíma en nýta þurfi tíma til að skipuleggja rétt viðbrögð. Heilbrigðiskerfið þurfi nauðsynlega að komast úr því að vera í stöðugu viðbragðs- og hættuástandi eins og oft hafi verið raunin.
„Heilbrigðismálin eru flókin og vandinn hefur safnast upp á löngun tíma. Við erum ekki að halda sjó,“ segir Halla og bætir við: „Að krabbameinstilvikum myndi fjölga hefur lengi verið vitað út frá aldurssamsetningu landsmanna. Viðvörunarljósin hafa blikkað í langan tíma Þarna verður að stíga inn af festu, raunin sýnir að það hefur því miður ekki verið gert. Á síðustu árum hafa Íslendingar sýnt mikla seiglu og útsjónarsemi í að takast við hamfaraveður og náttúrvá. Við verðum að vinna með sambærilegum hætti hvað varðar heilbrigðismálin. Hvað varðar krabbamein þarf að bæta aðstöðu, mönnun og tækjabúnað hjá Landspítala og eftir atvikum öðrum heilbrigðisstofnunum landsins líka.”
Úrbætur geta ekki beðið
Lyfjamál í heilbrigðiskerfinu eru, að mati Höllu, sérstakur kapítuli. Ljóst sé að Íslendingar séu farnir að dragast aftur úr öðrum löndum varðandi innleiðingu nýrra lyfja. Fréttir hafa nýverið sagðar um að fjármagn skorti til að kaupa mjög sérhæfð lyf. Um þetta segir Halla að brýnt sé að koma á enn betra samstarfi við einhverja Norðurlandaþjóð til að bæta þá stöðu, því Ísland sé alger örmarkaður og því í slakri samningsstöðu varðandi lyfjakaup.
„Margt í heilbrigðiskerfinu er þannig statt að mál verða ekki bara leyst á Landspítalanum og af starfsfólki þar. Að mínu mati þarf miklu skýrari yfirsýn og markmið frá stjórnvöldum. Ef árangur á að vera meðal þess sem best gerist verður að fylgjast með á öllum vígstöðvum. Margra mánaða bið eftir geislameðferð er óásættanleg staða sem getur ógnað árangri og batahorfum. Vinna verður að lausnum á þeim vandamálum sem eru uppi hér. Einnig verður að skipuleggja úrbætur varðandi húsnæði, mönnum, tækjabúnað og lyf til frambúðar,“ segir Halla og að síðustu: „Hér á landi er mjög metnaðarfullt starfsfólk í krabbameinsþjónustunni á sjúkrahúsunum. Því verður að tryggja bestan aðbúnað í starfi. Slíkt skilar sér beint til sjúklinganna og árangurs. Úrbætur þar geta ekki beðið, við þurfum viðbrögð við stöðunni eins og hún er í dag og skýra stefnu og markmið fram á veginn. Árangur af krabbameinsmeðferðum hér á landi er góður og við viljum að sjálfsögðu ekki missa hann niður.“