Vandræðagangur Samstarf Kristrúnar Frostadóttur og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur við Ingu Sæland hefur ekki gengið áfallalaust fyrir sig.
Vandræðagangur Samstarf Kristrúnar Frostadóttur og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur við Ingu Sæland hefur ekki gengið áfallalaust fyrir sig. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Síðustu dagar þingsins fyrir sumarfrí voru svo viðburðaríkir og dramatískir að fennt hefur hratt í sporin. Margir hafa eflaust gleymt því nú þegar að dramatíkin hefur verið viðloðandi nær allt frá því að ný ríkisstjórn tók við völdum skömmu fyrir áramót

Fréttaskýring

Andrea Sigurðardóttir

andrea@mbl.is

Síðustu dagar þingsins fyrir sumarfrí voru svo viðburðaríkir og dramatískir að fennt hefur hratt í sporin. Margir hafa eflaust gleymt því nú þegar að dramatíkin hefur verið viðloðandi nær allt frá því að ný ríkisstjórn tók við völdum skömmu fyrir áramót.

Styrkjamálið og skór

Darraðardansinn hófst í janúar þegar Morgunblaðið sagði frá því að einn ríkisstjórnarflokkanna, Flokkur fólksins, uppfyllti ekki skilyrði laga til að fá úthlutað opinberum styrkjum. Flokkurinn hafði ekki verið skráður á stjórnmálasamtakaskrá Skattsins en þegið hundruð milljóna í opinbera styrki í trássi við lög frá árinu 2022.

Inga Sæland, formaður flokksins og húsnæðis- og félagsmálaráðherra í ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur, sagði ekki koma til greina að endurgreiða styrkina og samráðherra Ingu, fjármálaráðherrann Daði Már Kristófersson, lét hjá líða að láta reyna á endurgreiðslukröfu.

Skömmu síðar bárust fregnir af því að Inga Sæland hefði hringt í skólastjóra vegna týnds skópars barnabarns hennar. Var fullyrt að hún hefði beitt sér sem ráðherra í málinu og sagst hafa ítök í lögreglunni þegar hún „hellti sér yfir“ skólastjórann. Vísir segir Ingu hafa sagt miðlinum að honum kæmi málið ekki við. Skólastjórinn vildi ekki tjá sig um málið í fjölmiðlum.

Leyndir hagsmunir

Í febrúar var sagt frá því í Spursmálum Morgunblaðsins að Sigurjón Þórðarson, þingmaður Flokks fólksins og formaður atvinnuveganefndar, hafi ekki sinnt upplýsingaskyldu sem á honum hvílir hvað varðar skráningu á strandveiðiútgerð hans í hagsmunaskrá Alþingis. Á sama tíma og hann átti ásamt eiginkonu sinni strandveiðiútgerðina Sleppu ehf. kom hann sem formaður atvinnuveganefndar að meðförum umdeilds strandveiðifrumvarps sem með beinum hætti hefði aukið verðmæti útgerðar hans verulega. Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra kom af fjöllum þegar hagsmunir Sigurjóns voru bornir undir hana í þættinum.

Svo fór að Sigurjón Þórðarson seldi hlut sinn í útgerðinni en eiginkona hans á enn 49% hlut og þau hjónin fara enn með stjórn og prókúru félagsins. Þá var samflokksmaður Sigurjóns Lilja Rafney Magnúsdóttir látin fara með framsögu strandveiðifrumvarpsins en eiginmaður hennar á einmitt líka 49% hlut í strandveiðiútgerð, Sæmundi Fróða ehf., á móti syni þeirra.

Eins og Sigurjón og eiginkona hans fara þau hjónin með stjórn og prókúru útgerðarinnar þrátt fyrir að makinn haldi á minnihluta í félaginu.

Algengt er að eignarhald og stjórn strandveiðiútgerða sé með þeim hætti eftir að svokölluð 51% regla tók gildi, sem felur í sér að um borð í strandveiðibát þurfi alltaf að vera sá sem fer með meira en 50% eignarhlut í honum. Menn sem fara með raunveruleg yfirráð félagsins láta þannig þriðja manni í té 51% sýndarhlut til þess að hann geti róið fyrir raunverulegan eiganda.

10 milljóna eingreiðsla

Í febrúar sagði Morgunblaðið jafnframt frá því að Ragnar Þór Ingólfsson, þingmaður Flokks fólksins, hefði þegið greiðslu á uppsagnarfresti frá VR, um 10 milljónir sem hann fékk í eingreiðslu að eigin ósk, þrátt fyrir að hafa látið af störfum að eigin frumkvæði og þrátt fyrir að þiggja á sama tíma laun frá Alþingi. Ragnar Þór sagðist ætla að nýta féð í neyðarsjóð fyrir fjölskylduna. Ragnar Þór hafði áður gagnrýnt forvera sinn fyrir að þiggja slíkar greiðslur en sá hvarf úr starfi eftir að hafa beðið ósigur í formannskjöri, sum sé ekki að eigin frumkvæði.

Ráðherra ýtt út

Í mars sagði Rúv. frá því að Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þáverandi mennta- og barnamálaráðherra, hefði eignast barn með 16 ára pilti þegar hún var 23 ára. Ástarsambandið hefði hafist þegar drengurinn var 15 ára en hún 22 ára og leiddi unglingastarf í trúarsöfnuði. Þegar ljóst var að Rúv. hugðist fjalla um málið sagði Ásthildur Lóa af sér sem ráðherra, en því hefur verið haldið fram að Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra hafi knúið hana til þess.

Áður en málið rataði í fjölmiðla hafði fyrrverandi tengdamóðir barnsföður Ásthildar Lóu reynt að fá fund með forsætisráðherra til þess að vekja athygli á málinu, án árangurs. Hún var verulega ósátt við hvernig ráðuneytið fór með beiðni hennar og að persónuupplýsingar hennar hefðu verið framsendar til Ásthildar Lóu. Sagði hún m.a. að hún hefði verið fullvissuð um að trúnaður ríkti um málið en forsætisráðherra sakaði hana um ósannindi í pontu Alþingis. Persónuvernd skoðar enn hvort persónuverndarlög hafi verið brotin í meðförum hins opinbera á erindi tengdamóðurinnar.

Höf.: Andrea Sigurðardóttir