Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Ríflega hundrað íbúðir hafa selst á ellefu þéttingarreitum í Reykjavík frá áramótum. Tveir nýir reitir komu á markað í vor, Laugaborg á Kirkjusandi og D-reitur á Orkureitnum, en með þeim hafa 788 íbúðir komið í sölu á þessum ellefu reitum frá því á síðari hluta ársins 2023. Það er hugsanlega mesta og fjölbreyttasta framboð nýrra íbúða á þéttingarreitum á síðari tímum í borginni.
Alls eru nú 416 íbúðir óseldar á þessum ellefu þéttingarreitum, en það er nokkurn veginn á við eitt og hálft Skuggahverfi. Með sama hraða og hefur verið í sölunni á fyrri hluta þessa árs mun taka tvö ár að selja íbúðirnar.
Þá eiga alls um 760 íbúðir eftir að koma í sölu á Hlíðarhorni á Hlíðarenda, á Orkureitnum og á Heklureitnum. Að auki eru til dæmis 47 óseldar íbúðir á Grensásvegi 1 við hlið Orkureitsins, en með þeim reit eru 463 íbúðir óseldar.
Glasið hálftómt eða hálffullt?
Fasteignasalar sem Morgunblaðið ræddi við segja sumarið hafa verið rólegt. Það er því túlkað á misjafnan hátt hvort það teljist mikið eða lítið að selst hafi ríflega 100 nýjar íbúðir á þessum reitum á fyrri hluta ársins. Gera má ráð fyrir að kaupverðið nálgist 10 milljarða króna, sem er umtalsverð fjárfesting.