Tónlist Jón Bjarnason hér við flygilinn, sem nú er kominn á háan stall í hljómgóðri Skálholtskirkju, þar sem árleg hátíð verður haldin nú um helgina.
Tónlist Jón Bjarnason hér við flygilinn, sem nú er kominn á háan stall í hljómgóðri Skálholtskirkju, þar sem árleg hátíð verður haldin nú um helgina. — Ljósmynd/Henriette Paetz
„Hljóðfærið hefur alveg einstakan hljóm svo ég er heillaður. Gripinn fengum við hingað í kirkjuna fyrr í vikunni og þegar hann var kominn á sinn stað settist ég niður og spilaði af fingrum fram fram á nótt,“ segir Jón Bjarnason organisti í Skálholti

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Hljóðfærið hefur alveg einstakan hljóm svo ég er heillaður. Gripinn fengum við hingað í kirkjuna fyrr í vikunni og þegar hann var kominn á sinn stað settist ég niður og spilaði af fingrum fram fram á nótt,“ segir Jón Bjarnason organisti í Skálholti. Tilfæringar þurfti á biskupssetrinu nú í vikunni þegar þangað var komið með Steinway-flygil sem áður var í Salnum í Kópavogi. Með frjálsum framlögum og tónleikahaldi hefur síðustu misseri verið safnað fyrir hljóðfærinu, sem kostar drjúgan skildinginn.

„Að fá hingað þetta vandaða hljóðfæri í kirkjuna eru algjör straumhvörf. Öðrum þræði er þetta tónlistarhús. Því þarf hér að vera flygill, eins og sá sem nú er hingað kominn,“ segir Jón Bjarnason.

Hljómburður í Skálholtskirkju þykir góður. Þess vegna meðal annars sækjast kórar, íslenskir sem erlendir, eftir því að koma fram í kirkjunni. Þekkt er að kórverk séu samin og útsett fyrir undirleik píanós, sem í Skálholt hefur vantað. Reynt hefur verið á stundum að bjarga málum fyrir horn með einföldum hljóðfærum en með misjöfnum árangri. Nú ætti allt að verða í þessu fína, því flygillinn góði hefur mikinn og sterkan hljóm.

Skálholtshátíð verður nú um helgina. Hluti af dagskrá hennar er kynning og vígsla á flyglinum nýja, í hátíðarmessu á sunnudag sem hefst kl. 14. Einnig við hátíðardagskrá kl. 16, að messuhaldi loknu. Á haustdögum er svo stefnt að frekara tónleikahaldi í Skálholti, þar sem Steinway í öllu sínu veldi verður í aðalhutverki.

Fagurt og fjölbreytt

„Ljóst er að með tilkomu flygils mun helgi- og tónlistarhald Skálholtsdómkirkju fá á sig enn fegurri og fjölbreyttari blæ auk þess sem staða Skálholtsdómkirkju mun styrkjast enn frekar sem tónlistarhús og menningarmiðstöð á Suðurlandi,“ segir á skalholt.is.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson