Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Landhelgisgæslan fær 60 milljónir króna í björgunarlaun eftir að varðskipið Freyja kom Dettifossi, flutningaskipi Eimskips, til aðstoðar, en Dettifoss varð vélarvana á hafsvæðinu á milli Íslands og Grænlands í síðustu viku. Var Freyja send út um hádegisbil miðvikudaginn 9. júlí. Kom hún að Dettifossi á fimmtudagskvöld og kom með skipið í togi til hafnar í Reykjavík á laugardagskvöld. Drátturinn stóð því yfir í um þrjá og hálfan sólarhring.
Ásgrímur L. Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar, segir í samtali við Morgunblaðið að þegar komi að alþjóðlegum verkefnum eins og þessu, en Dettifoss er skráður í Færeyjum, sé miðað við alþjóðlegan samning BIMCO og hann lagaður að íslenskum aðstæðum hvað varðar björgunarlaun. Einnig er miðað við þann kafla siglingalaga sem kveður á um greiðslu björgunarlauna.
Í tilvikum sem þessum segir Ásgrímur að tekið sé tillit til þess hve langur tími fari í siglinguna að skipinu sem bjarga eigi, hve lengi það sé í drætti og hversu mikið eldsneyti sé notað í aðgerðinni. Upphæð björgunarlauna er síðan reiknuð út frá þeim forsendum.
Ásgrímur segir að björgunin hafi gengið að óskum, vel hafi gengið að koma dráttartaug frá Freyju yfir í Dettifoss. „Þetta gekk mjög vel, það var gott í sjóinn og meðalhraði skipanna í drættinum var yfir átta hnútar,“ segir Ásgrímur.
Spurður hvort áhöfnin njóti björgunarlaunanna að einhverju leyti segir Ásgrímur að siglingalög kveði á um skiptingu björgunarlauna. Grunnurinn sé sá að kostnaður við björgunina sé dreginn frá, þ.e. eldsneytiskostnaður og almennur kostnaður sem til falli við daglegan rekstur skipsins.
Þá fái Landhelgisgæslan hluta björgunarlaunanna en það sem eftir standi skiptist á milli áhafnarmeðlima í hlutfalli við það hvaða stöðu þeir gegni um borð.