Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Hjá Veðurstofunni er nú unnið að undirbúningi vegna uppsetningar á veðursjá sem valinn hefur verið staður á Brunnahæð, sem er nærri Látrabjargi. Veðursjáin er hlekkur í keðju mælitækja sem vakta veður á landinu og á nærliggjandi svæðum úti á hafi. Veðursjár eru þegar komnar upp á Miðnesheiði við Keflavík, á Bjólfi ofan við Seyðisfjörð og á Selfelli á norðanverðum Skaga.
Upphaflega var ætlunin sú að veðursjá fyrir Vestfirði yrði á Bolafjalli ofan við Bolungarvík, utarlega í Ísafjarðardjúpi. Nánari skoðun leiddi í ljós að betur færi á staðsetningu sunnar og niðurstaðan þá varð Brunnahæð. Málið hefur fengið umfjöllun hjá Vesturbyggð og skipulagsfulltrúi hefur fengið heimild sveitarstjórnar til útgáfu framkvæmdaleyfis.
120 km radíus
„Ferlið er talsvert langt. Nú fer verkið í útboð og frekari útfærslu. Veðursjáin verður sett upp að ári og upplýsingar frá henni byrja að streyma inn í kerfi okkar haustið 2026,“ segir Ingvar Kristinsson, framkvæmdastjóri athugana- og upplýsingatæknisviðs, í samtali við Morgunblaðið. Hluti af framkvæmdum vestra er að leggja þarf veg að Brunnahæð frá leiðinni sem liggur út að Látrabjargi. Einnig að setja niður og tengja 2,5 km langan streng fyrir rafmagn og fjarskipti. Áætlaður kostnaður við þetta verkefni er áætlaður alls 270 millj. kr.
„Staðsetning á Brunnahæð er góð því staðurinn er í talsverðri hæð. Slíkt kemur sér vel við vöktun úti á sjó, greiningarhæfni veðursjárinnar er góð í allt að 120 km radíus. Af umræddum stað náum við góðri vöktun á Breiðafjörð og norðanvert Snæfellsnes, sem ekki hefur verið nógu vel inni í geislanum. Einnig getum við þarna fylgst með Grænlandshafi; hæðum, lægum og öðrum veðrabrigðum sem þar koma. Við vitum að bæta þarf til dæmis vöktun á þeim veðrakerfum sem geta orsakað snjóflóð og skriðuföll. Veðursjár gera einnig mögulegt að fylgjast með hvort eldfjallaaska liggi í loftinu en slíkt er þýðingarmikið að vita samanber reynslu síðustu ára.“
Sú veðursjá sem er á Selfjalli á Skaga gerir mögulegt að fylgjast vel með veðrakerfum sem koma að landinu úr norðri. Í því sambandi nefnir Ingvar hið mikla áhlaup sem gerði á norðanverðu landinu rétt fyrir jól 2019. Sá ofsi skall á fyrirvaralítið og olli m.a. langvarandi rafmagnsleysi á Dalvík.
Klaustur og Melrakkaslétta
„Ef veðursjáin á Selfjalli hefði verið komin þegar óveðrið gekk yfir á Dalvík og víðar hefði vafalítið mátt gera einhverjar ráðstafanir áður,“ segir Ingvar. „Að vera út til stranda með svona stöðvar er mikilvægt, samanber að á Austurlandi var veðursjáin flutt af Miðfelli á Fljótsdalsheiði á Bjólfinn við Seyðisfjörð, sem er mun betri staðsetning.“
Ingvar getur þess enn fremur að á stefnuskrá sé, þegar framkvæmdum á Brunnahæð lýkur, uppsetning veðursjáa á Melrakkasléttu og á SA-landi, til dæmis nærri Kirkjubæjarklaustri. Stefnan sé sú að ljúka uppbyggingu veðursjárkerfisins á næstu fimm árum. Þegar allt sé í höfn verði sex fastar veðursjár á landinu og ein færanleg til að greina ösku í eldgosum.