Jónína Björk Óskarsdóttir
Jónína Björk Óskarsdóttir
Eftir lengsta málþóf í sögu Alþingis tókst loksins að ljúka þingstörfum á fyrsta þingi ríkisstjórnarinnar. Þrátt fyrir að stjórnarandstaðan hafi með fordæmalausu málþófi reynt að stöðva framgang margra þjóðþrifamála, stendur ríkisstjórnin sterk og…

Eftir lengsta málþóf í sögu Alþingis tókst loksins að ljúka þingstörfum á fyrsta þingi ríkisstjórnarinnar. Þrátt fyrir að stjórnarandstaðan hafi með fordæmalausu málþófi reynt að stöðva framgang margra þjóðþrifamála, stendur ríkisstjórnin sterk og ákveðin í að klára þau verkefni sem ekki náðu fram að ganga. Þau mál verða lögð fram að nýju þegar þing kemur saman eftir átta vikna hlé, fullunnin og tilbúin til umræðu.

Mikill árangur náðist engu að síður á þessu fyrsta þingi og má þar sérstaklega nefna ný lög um leiðréttingu á útreikningi veiðigjalda. Þetta er í fyrsta skipti sem ríkisstjórn hefur sett hagsmuni þjóðarinnar framar sérhagsmunum þegar kemur að nýtingu auðlinda í eigu hennar. Ekki kom á óvart að ein sterkasta sérhagsmunablokk landsins reyndi allt til að koma í veg fyrir þessa breytingu, en ríkisstjórnin stóð fast á sínu og tryggði að frumvarpið næði fram að ganga.

Sérstaklega er vert að nefna þann árangur sem náðist í málefnum eldri borgara. Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar tryggir nú að lífeyrir fylgi launaþróun, sem mun stórbæta fjárhagsstöðu margra eldri borgara sem búa við fátækt. Auk þess hefur verið ákveðið að nær tvöfalda frítekjumark ellilífeyris á þessu kjörtímabili, sem mun hafa umtalsverð áhrif á tekjur þessa hóps. Þrátt fyrir mótstöðu stjórnarandstöðunnar er ljóst að þessi mál skipta sköpum fyrir lífsgæði eldri borgara, og ríkisstjórnin er staðráðin í að koma þeim í gegn á komandi þingvetri.

Í málefnum aldraða hefur félags- og húsnæðismálaráðherra, Inga Sæland, sýnt mikinn dugnað og árangur. Á aðeins nokkrum mánuðum hefur verið hafin bygging á 352 nýjum hjúkrunarrýmum, sem er margfalt meira en síðasta ríkisstjórn náði að framkvæma á heilum sex árum. Forsenda þessa árangurs var frumvarp Ingu Sæland um breytta kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga við uppbyggingu hjúkrunarrýma. Þetta er aðeins upphafið, og ríkisstjórnin mun halda áfram að leggja áherslu á að bæta aðbúnað þeirra sem þurfa mest á stuðningi að halda.

Þrátt fyrir erfiða byrjun, þar sem stjórnarandstaðan beitti öllum ráðum til að tefja og hindra framgang mála, hefur ríkisstjórnin sýnt að hún er tilbúin að takast á við áskoranir. Þingmenn stjórnarflokkanna eru einhuga í því að halda áfram störfum með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. Á næstu mánuðum verður unnið hörðum höndum að því að klára þau mál sem enn bíða, og þingflokkurinn hlakkar til að halda áfram að byggja upp samfélag þar sem hagsmunir almennings eru í fyrirrúmi. Næg eru verkefnin, en ríkisstjórnin er rétt að byrja.

Höfundur er þingmaður Flokks fólksins í Suðvesturkjördæmi.

Höf.: Jónína Björk Óskarsdóttir