Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Tveggja milljóna króna hagnaður varð af rekstri Skáksambands Íslands á síðasta ári. Þetta kom fram á framhaldsaðalfundi sambandsins sem haldinn var í síðustu viku. Vegna margra samverkandi þátta voru reikningar sambandsins ekki tilbúnir í tíma fyrir aðalfund sem haldinn var á Blönduósi í júní svo að boða þurfti til framhaldsaðalfundar, þar sem fyrrgreind niðurstaða var kynnt.
Tiltekið er sérstaklega að hagnaður hafi verið af Reykjavíkurskákmótinu, sem nú er orðið sjálfbært eftir að hafa verið rekið með tapi síðustu ár, segir Gunnar Björnsson. Hann er nú framkvæmdastjóri SÍ, en á aðalfundinum í júní tók Jóhanna Björg Jóhannsdóttir við embætti forseta.
„Ég hef verið viðloðandi skákina lengi og finnst sem áhuginn hafi aldrei verið meiri en nú. Eitthvað liggur í loftinu og margt spennandi er fram undan. Nær okkur í tíma er Evrópumót landsliða sem haldið verður í Georgíu í október,“ segir Gunnar. Fulltrúar Íslands á Evrópumótinu í Georgíu í opnum flokki verða Vignir Vatnar Stefánsson, Hannes Hlífar Stefánsson, Guðmundur Kjartansson, Aleksandr Domalchuk-Jonasson og Dagur Ragnarsson. Kvennaliðið skipa Lenka Ptácníková, Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir, Jóhanna Björg Jóhannsdóttir, Guðrún Fanney Briem og Iðunn Helgadóttir.