Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
„Þetta sýnir þann skrípaleik sem þessi ríkisstjórn er að stunda, stjórnarflokkarnir eru bara í þessu fyrir sjálfa sig en ekki af ábyrgð. Þeir átta sig ekki á ábyrgð sinni og þeim skyldum sem fylgja því að fara með valdið í landinu,“ segir Vilhjálmur Árnason alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í samtali við Morgunblaðið.
Leitað var eftir viðbrögðum hans við þeim gjörningi ríkisstjórnarflokkanna sem kunngjörður var sl. fimmtudag, að færa svokallað byggðakerfi í sjávarútvegi frá atvinnuvegaráðuneytinu til innviðaráðuneytisins, en undir þeim málaflokki eru strandveiðar, byggðakvóti, línuívilnun o.fl. málefni sjávarútvegsins.
„Stjórnarflokkarnir keyra málin áfram á popúlískan hátt en ekki af þeirri ábyrgð sem því fylgir að hafa völdin og vera í ríkisstjórn. Það er verið að gefast upp í einum málaflokki og færa hann á milli ráðuneyta og í raun er verið að flytja ábyrgðarsviðið á milli stjórnarflokka, frá Viðreisn til Flokks fólksins. Það sýnir að Viðreisn er ekki sammála Flokki fólksins í þessari vegferð og Flokkur fólksins treystir Viðreisn ekki fyrir málaflokknum lengur,“ segir Vilhjálmur og nefnir að þetta sé enn ein birtingarmynd þess að stjórnarflokkarnir séu ósammála um ýmis mál.
„Þessi ríkisstjórn kallar sig samheldna verkstjórn en hefur ekki komið sér saman um eina einustu hagræðingartillögu í ríkisfjármálum, nema þá að hækka skatta á fólk og fyrirtæki,“ segir Vilhjálmur.
Ekki áhugamál Viðreisnar
„Mér þykir einsýnt að það hafi legið fyrir frá upphafi að strandveiðarnar hafi ekki verið áhugamál Viðreisnar, eins og ráðherra Viðreisnar fjallaði um fyrir nokkrum árum. Daði Már hefur skrifað lærðar greinar um óhagkvæmni strandveiða og mér sýnist þetta endurspegla áhugaleysi flokksins á strandveiðum,“ segir Sigríður Á. Andersen þingmaður Miðflokksins.
„Í stað þess að taka málefnalega á strandveiðum og leiða málið í jörð, eins og við í stjórnarandstöðunni erum margoft búin að hvetja atvinnuvegaráðherra til að gera, sem og að krefja hana svara um hvernig hún ætli að efna loforð um 48 daga til strandveiða. Hún henti út loforði um 48 daga í fullkominni óvissu um hvernig hún ætlaði að efna loforðið. Þetta var algerlega innistæðulaust loforð hjá Hönnu Katrínu,“ segir Sigríður.
„Þegar hún stóð frammi fyrir því að geta ekki efnt loforðið í sumar var málaflokknum skutlað yfir til Flokks fólksins sem er eini flokkurinn á þingi sem hefur einhvern áhuga á þessu máli. Það má velta því fyrir sér hvort þarna sé verið að gefa þau skilaboð að þetta sé ekki alvöru atvinnuvegur, heldur einhver sportveiði,“ segir hún.
Upptaktur að einhverju
„Þetta blasir við mér sem mjög sérstök ákvörðun. Ég hef ekki séð rökin fyrir þessu og veit ekki hvað liggur þarna að baki,“ segir Stefán Vagn Stefánsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins.
„Ég átta mig á því að það er einhver byggðavinkill í þessu en mér finnst mjög sérstakt að taka þennan hluta sjávarútvegskerfisins og flytja hann annað. Mér vitanlega hefur þetta aldrei verið rætt en þetta er klárlega einhver birtingarmynd af vandræðagangi og ber þess merki,“ segir hann.
„Þessi atburðarás virkar þannig á mig að þetta sé upptakturinn að einhverju. Það er verið að koma þessum málaflokki yfir í ráðuneyti Flokks fólksins, það æpir á mann,“ segir Stefán Vagn.