Kristján Jónsson
kris@mbl.is
Mörgum þykir eflaust vel af sér vikið að ljúka Laugavegshlaupinu einu sinni á ævinni. Höskuldur Kristvinsson vann það afrek fyrir viku að hlaupa Laugavegshlaupið í 25. skipti. Laugavegshlaupið er 55 km utanvegahlaup, en Laugavegurinn tengir saman Landmannalaugar og Þórsmörk. Börn Höskuldar og barnabarn voru einnig með í þetta skipti.
„Já, það er í raun og veru skrítið að hugsa til þess að ég hafi náð að vera með í 25 skipti en það var ekki planað. Þetta bara gerðist. Hlaupið var í fyrsta skipti haldið árið 1997 og ég tók fyrst þátt árið eftir. Þá kynntist ég því að Laugavegurinn væri til staðar og frá árinu 2006 hef ég farið í hlaupið á hverju ári,“ segir Höskuldur og bætir því við í léttum dúr að samanlagt hafi hann í heildina verið í rútu á leiðinni í Landmannalaugar í rúma þrjá sólarhringa.
Höskuldur er þrautreyndur hlaupari og hlaupið situr ekki mjög í honum þrátt fyrir að hann sé á sjötugasta og sjötta aldursári. Segist hann yfirleitt vera fljótur að jafna sig. Þeir sem þekkja til í þessum bransa kannast við Höskuld, enda hefur hann í gegnum tíðina tekið þátt í hlaupum innanlands sem erlendis og í þrautum eins og Járnkarli. Hann segir að Laugavegshlaupið hafi gjarnan verið miðpunktur sumarsins hjá sér varðandi það að halda sér í formi.
Fjölskyldan oftar með
„Umfangið hefur breyst talsvert. Undirbúningurinn er langur og nú þarf að sækja um hálfu ári fyrir hlaupið. Leiðin er ótrúlega fjölbreytileg og erfitt að koma orðum að því. Litirnir í landslaginu, árnar, gufa hér og þar, hæðarmunur og snjórinn mismunandi mikill.“
Því verður ekki haldið fram að Höskuldur og skyldmenni hans hafi látið sitt eftir liggja þegar kemur að Laugavegshlaupinu. Börn hans Anna Kristín og Jón Hinrik tóku einnig þátt í hlaupinu og dóttursonurinn Tyler.
„Þetta var mjög skemmtilegt. Fleiri úr fjölskyldunni hafa tekið þátt á undanförnum árum. Systir mín og hennar maður, tveir bræðrasynir og systursonur. Þetta er fjöldi manns en ég skal ekki segja til um hvort þetta sé ættgengt eða berist eins og smitsjúkdómur,“ segir Höskuldur, sem byrjaði fremur seint að hlaupa markvisst. Segist hafa verið aðeins í körfubolta á yngri árum en byrjað að hlaupa þegar hann var að ljúka námi í Bandaríkjunum. Fljótlega hafi hann tekið þátt í New York-maraþoninu og hafi hlaupið allmörg maraþonhlaup.
„Þetta áhugamál hefur haldið mér í formi í gegnum árin. Ef fólk vill koma sér í betra form er fyrsta skrefið að reima á sig skóna og koma sér út um dyrnar. Gott er að hafa eitthvert markmið til að stefna að. Fyrir mig hefur alla vega verið alveg nauðsynlegt að vera með einhvers konar markmið.“