Framkvæmdir við nýjan grunn- og leikskóla á Bíldudal ganga vel að sögn talsmanns Vesturbyggðar.
Ákveðið var að rífa gamla skólann á Dalbraut 2 á Bíldudal eftir að mygla kom upp í húsnæðinu. Framkvæmdir við nýja skólann hófust í upphafi árs og var í fyrstu áætlað að skólinn yrði opnaður í upphafi skólaársins en tafir urðu á framkvæmdum.
Rúnar Örn Gíslason, formaður heimastjórnar Arnarfjarðar, sagði í samtali við mbl.is í júní sl. að stefnt væri á að opna skólann fyrir árslok.
Nýi skólinn rís á lóð við Hafnarbraut, nálægt íþróttamiðstöðinni Byltu, og mun hýsa bæði leikskóladeild og grunnskóladeild. Gert er ráð fyrir að byggingin rúmi á bilinu 30 til 40 börn og áformað að hægt verði að stækka hana síðar ef þess gerist þörf. Kostnaður framkvæmda hleypur á tæpum 700 milljónum króna.
Ekki hafa komið upp neinar frekari tafir á framkvæmdum og þær ganga samkvæmt áætlun.