— Morgunblaðið/Árni Sæberg
„Verkið gengur ágætlega, en verklok eru áætluð í september á næsta ári,“ segir Kristinn Sigvaldason, sviðsstjóri hjá Borgarverki, í samtali við Morgunblaðið, en Borgarverk vinnur nú að vegagerð á Vestfjarðavegi um Dynjandisheiði

„Verkið gengur ágætlega, en verklok eru áætluð í september á næsta ári,“ segir Kristinn Sigvaldason, sviðsstjóri hjá Borgarverki, í samtali við Morgunblaðið, en Borgarverk vinnur nú að vegagerð á Vestfjarðavegi um Dynjandisheiði.

Um er að ræða 3. áfanga vegagerðar yfir Dynjandisheiði, en verkefnið sem nú er unnið að felst í nýbyggingu Vestfjarðavegar á um 7,1 kílómetra kafla ásamt 800 metra vegarspotta á Dynjandisvegi.

Vegurinn er að mestu byggður í nýju vegstæði en einnig að hluta til í núverandi vegstæði. Auk vegagerðarinnar felst í verkinu gerð keðjunarplans sem og gerð áningarstaðar.

Skrifað var undir verksamning Borgarverks og Vegagerðarinnar í byrjun mars sl., en Borgarverk átti lægsta tilboð í verkið, ríflega 1.482 milljónir króna.

Alls er vegagerðinni um Dynjandisheiði skipt í þrjá áfanga. Á heimasíðu Vegagerðarinnar segir að um sé að ræða 35,2 kílómetra langan veg og einbreiðum brúm á leiðinni muni fækka um átta.