Eyjólfur Ármannsson
Eyjólfur Ármannsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kostnaður við utanlandsferðir ráðherra í ríkisstjórninni ásamt föruneyti er mishár. Ferðirnar á kjörtímabilinu eru a.m.k. 55 talsins og kostnaður við þær ferðir tæpar 60 milljónir króna. Í flestum tilfellum er um flug með Icelandair að ræða

Fréttaskýring

Flóki Larsen

floki@mbl.is

Kostnaður við utanlandsferðir ráðherra í ríkisstjórninni ásamt föruneyti er mishár. Ferðirnar á kjörtímabilinu eru a.m.k. 55 talsins og kostnaður við þær ferðir tæpar 60 milljónir króna. Í flestum tilfellum er um flug með Icelandair að ræða.

Morgunblaðið sendi ráðuneytunum fyrirspurn er sneri að ferðakostnaði ráðherra til útlanda auk föruneytis á yfirstandandi kjörtímabili, sem hófst í lok síðasta árs. Ráðherrar ferðuðust ýmist einir en þó langoftast með förunaut og stundum nokkra í föruneyti, mest fjóra í einni ferð.

Utanríkisráðherra stendur undir nafni en kostnaður við 13 ferðir Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur eru 16,2 milljónir frá því hún tók við embætti til 1. júní. Einhverjir ráðherrar ferðast ávallt með Saga Class Icelandair, sumir stundum og aðrir aldrei. Ráðherra hefur heimild til að ferðast á fyrsta farrými, þegar slíkt er í boði, með einum förunaut. Atvinnuvegaráðherra bókaði þó tvo á Saga Class í einni ferð.

Utanríkis- og forsætisráðuneytið sendu aðeins tölur um kostnað vegna ferða sem farnar voru fyrir 1. júní. Því má ætla að eitthvað bætist við vegna ferða sem farnar voru í júní og júlí eins og ferð forsætisráðherra og utanríkisráðherra á leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins í lok júní. Þá bárust svör einnig misfljótt frá ráðuneytunum og því viðbúið að fleiri ferðir hafi verið farnar síðan fyrirspurnum var svarað.

Kristrún vermir annað sætið

Ferðir forsætisráðherra, Kristrúnar Frostadóttur, voru sjö talsins og kostnaðurinn næsthæstur, 11,1 milljón króna. Kostnaður við ferðir Kristrúnar og Þorgerðar er umtalsvert hærri en annarra ráðherra.

Í þriðja sæti er Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra en ferðir hennar kostuðu 4,5 milljónir.

Í fjórða sæti er Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra með kostnað upp á tæpar 4,4 milljónir. Kostnaður annarra ráðuneyta er í öllum tilfellum undir fjórum milljónum króna.

Frá ráðuneytunum bárust einnig upplýsingar um hvort ferðast hefði verið á Saga Class eða á almennu farrými. Samkvæmt reglum um ferðakostnað ráðherra er ráðuneytum heimilt að bóka flug á fyrsta farrými fyrir ráðherra og einn förunaut í þágu vinnuhagræðis og öryggissjónarmiða. Sumir ráðherrar hafa nýtt sér að ferðast á fyrsta farrými þegar slíkt er í boði en aðrir ekki.

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og Þorbjörg Sigríður dómsmálaráðherra ferðast iðulega á fyrsta farrými í ferðum sínum og bjóða einum förunaut með. Séu fleiri förunautar með í för ferðast þeir á almennu farrými eins og reglur kveða á um.

Þorgerður Katrín utanríkisráðherra ferðast ávallt á Saga Class þegar það er í boði en fylgdarmenn hennar ekki.

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra flýgur með Saga Class og á almennu farrými til skiptis. Tvær af fjórum ferðum voru á fyrsta farrými. Í annarri þeirra ferðaðist Hanna Katrín með tveimur förunautum á Saga Class, sem er ekki samkvæmt fyrrnefndum reglum.

Inga Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra hefur einnig flakkað á milli farrýma. Hún ferðaðist í helmingi flugleggja með Saga Class en föruneyti hennar var alltaf á almennu farrými.

Sex ráðherrar hafa ekki ferðast á fyrsta farrými á kjörtímabilinu. Alma D. Möller heilbrigðisráðherra er þ. á m. en hún hefur, ein ráðherra, ferðast á Business Class og almennu farrými til skiptis.

Þeir ráðherrar sem aðeins hafa ferðast á almennu farrými eru Logi Einarsson menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra; Daði Már Kristófersson fjármála- og efnahagsráðherra; Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra; Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra; Guðmundur Ingi Kristinsson mennta- og barnamálaráðherra og Ásthildur Lóa Þórsdóttir, forveri hans í þeim stóli.

Höf.: Flóki Larsen