Gunnlaugur Guðmundsson, fv. kaupmaður í Reykjavík, lést 16. júlí á Hrafnistu við Sléttuveg í Reykjavík, 94 ára að aldri. Gunnlaugur fæddist í Vesturhópshólum í V-Húnavatnssýslu 8. febrúar 1931. Foreldrar hans voru Ingibjörg Lára Guðmannsdóttir og Guðmundur Jónsson, bændur í Vesturhópshólum

Gunnlaugur Guðmundsson, fv. kaupmaður í Reykjavík, lést 16. júlí á Hrafnistu við Sléttuveg í Reykjavík, 94 ára að aldri.

Gunnlaugur fæddist í Vesturhópshólum í V-Húnavatnssýslu 8. febrúar 1931. Foreldrar hans voru Ingibjörg Lára Guðmannsdóttir og Guðmundur Jónsson, bændur í Vesturhópshólum. Gunnlaugur var næstyngstur sjö systkina.

Eiginkona Gunnlaugs var Svanhildur Erla Jóhannesdóttir Levy, fædd í Hrísakoti á Vatnsnesi V-Húnavatnssýslu 4. september 1937. Hún lést 31. desember 2020. Þeim varð fimm barna auðið og lifa fjögur þeirra. Garðar, fæddur 11. desember 1956, drengur, fæddur
29. desember 1957, dáinn 31. desember 1957, Gunnlaugur Sævar, fæddur 29. desember 1958, Hildur, fædd 25. júní 1965, og Áslaug, fædd 23. október 1973.

Gunnlaugur missti föður sinn 15 ára gamall. Hann hóf ungur að árum verslunarstörf hjá föðurbróður sínum, Gunnlaugi Jónssyni kaupmanni, sem stofnað hafði og rekið verslunina Gunnlaugsbúð í Reykjavík. Tók hann síðar við rekstrinum og rak hana í áratugi ásamt Erlu og börnum. Gunnlaugsbúð starfaði lengst framan af á Freyjugötu 15 í Reykjavík og naut vinsælda meðal íbúa hverfisins, sem margir hverjir héldu trúnað við kaupmanninn þrátt fyrir að þeir flyttu í önnur borgarhverfi. Gunnlaugur og Erla reistu síðar verslunarmiðstöð við Hverafold 1-5 í Grafarvogshverfi og ráku þar Gunnlaugsbúð, söluturninn Foldaskálann og Sportbúð Grafarvogs. Voru þau hjónin afar samheldin í öllu sem þau tóku sér fyrir hendur.

Þau áttu verslunarmiðstöðina að stærstum hluta en að endingu lauk farsælli rekstrarsögu þeirra þegar aldurinn færðist yfir og seldu þau eignir sínar í Grafarvoginum.

Tók þá við nýr kafli ævi þeirra er þau keyptu jörðina Gölt í Grímsnesi er liggur að Hestvatni norðanverðu. Íslenska sveitin hafði ávallt skipað stóran sess í sálum þeirra og hófst nú nýr kafli athafnasemi við skógrækt, húsa- og jarðabætur. Borað var eftir heitu vatni, sem skilaði árangri og reistu þau sér myndarlega sundlaug á jörðinni sem afkomendur þeirra njóta nú í ríkum mæli.