Vopnaðar sýrlenskar sveitir börðust við bardagamenn drúsa í Sweida í gær, degi eftir að herinn hörfaði þaðan undan loftárásum Ísraela og diplómatískum þrýstingi.
Sameinuðu þjóðirnar kölluðu eftir því að „blóðbaðinu“ yrði hætt og kröfðust rannsóknar á ofbeldinu sem hefur kostað næstum 600 manns lífið síðan á sunnudag, samkvæmt sýrlenskum mannréttindasamtökum.
Ísrael, sem varpaði sprengjum á Sweida og Damaskus fyrr í vikunni, hyggst senda aðstoð til drúsa. „Í ljósi nýlegra árása sem beinast að drúsum í Sweida og þess alvarlega ástands sem er á svæðinu hefur utanríkisráðherrann Gideon Saar fyrirskipað bráða mannúðaraðstoð til drúsa á svæðinu,“ sagði ísraelska utanríkisráðuneytið.