Evrópusamband Ursula vakti athygli á blaðamannafundinum á öryggissvæðinu í Reykjanesbæ þegar hún sagði að umsókn Íslands væri enn í gildi.
Evrópusamband Ursula vakti athygli á blaðamannafundinum á öryggissvæðinu í Reykjanesbæ þegar hún sagði að umsókn Íslands væri enn í gildi. — Morgunblaðið/Hákon
Eftir að Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði í gær að aðildarumsókn Íslands væri enn í gildi hefur deila blossað upp á ný um það hvort Ísland teljist í raun umsóknarríki eða ekki

Hermann Nökkvi Gunnarsson

hng@mbl.is

Eftir að Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði í gær að aðildarumsókn Íslands væri enn í gildi hefur deila blossað upp á ný um það hvort Ísland teljist í raun umsóknarríki eða ekki.

Hjörtur J. Guðmundsson alþjóðastjórnmálafræðingur segir í samtali við Morgunblaðið að ákveðinn formgalli hafi verið á bréfi sem ríkisstjórn Íslands sendi til ESB árið 2015, þar sem lýst var yfir vilja til að hætta við aðildarviðræður.

Vegna þessa formgalla megi færa rök fyrir því að umsóknin sé enn formlega í gildi.

Í tíð Gunnars Braga Sveinssonar sem utanríkisráðherra sendi ríkisstjórnin bréf til formanns ráðherraráðs ESB árið 2015. Þar kom fram að ríkisstjórnin hefði engin áform um að hefja aðildarviðræður að nýju og því ætti ekki lengur að líta á Ísland sem viðurkennt umsóknarríki eða á ensku „candidate country“.

Hjörtur segir að þetta hugtak – candidate – skipti höfuðmáli.

Hann bendir á að umsóknarríki ESB séu í fyrstu skilgreind sem „umsóknarríki“ [e. applicant countries] en hljóti síðan stöðu viðurkennds umsóknarríkis [e. candidate country] þegar ráðherraráðið samþykkir umsóknina.

Íslensk umræðuhefð hefur ekki gert skýran greinarmun á þessu tvennu, og bæði stig verið kölluð „umsóknarríki“.

„Bréfið sem þáverandi ríkisstjórn sendi árið 2015 sagði að ekki bæri að líta lengur á Ísland sem „candidate country“ og var landið í kjölfarið tekið af lista sambandsins yfir slík ríki,“ segir Hjörtur.

„En miðað við ferli ESB getur umsókn samt verið í gildi þótt land sé ekki „candidate“. Þá er það einfaldlega „applicant“.“

Hjörtur segir að tilgangur bréfsins hafi verið skýr – að hætta við umsóknina – og að embættismenn ESB hafi verið vel meðvitaðir um það.

„Gunnar Bragi var fullvissaður um það, bæði af embættismönnum utanríkisráðuneytisins og sambandsins, að bréfið fæli í sér að umsóknin yrði dregin til baka, en færa má rök fyrir því að ákveðinn formgalli hafi verið til staðar. Formgalli sem embættismenn ESB hljóta auðvitað að hafa verið vel meðvitaðir um.“

Aðspurður hvort umsókn Íslands sé enn í gildi segir Hjörtur:

„Það má sem sagt færa rök fyrir því að ákveðinn formgalli hafi fyrirfundist, það er að ekki hafi verið notað rétt hugtak.“

Hann bætir við að til að hafa þetta öruggt hefði vitanlega verið best að segja hreint út „umsóknin hefur verið dregin til baka“ eða á ensku „the application has been withdrawn“.

Gefur ekkert fyrir orð Ursulu

Í skriflegu svari Gunnars Braga til Morgunblaðsins í gær segir hann að það hafi verið staðfest skriflega árið 2015 af hálfu þáverandi stjórnvalda ESB að tekið yrði mið af óskum íslenskra stjórnvalda.

„Ég gef ekkert fyrir orð þessa starfsmanns ESB. Það var staðfest skriflega 2015 af hálfu þáverandi stjórnvalda ESB að það yrði tekið mið af óskum íslenskra stjórnvalda enda er Ísland hvergi talið upp sem umsóknarríki eða í aðildarferli,“ skrifar Gunnar Bragi.

Sendinefnd ESB á Íslandi í desember 2024 sagði í svari til Morgunblaðsins:

„Ísland gerði hlé á aðildarviðræðunum árið 2013. Í mars 2015 óskuðu íslensk stjórnvöld eftir því að „að ekki skuli líta á Ísland sem umsóknarríki [e. candidate country] ESB“. Framkvæmdastjórn ESB tók það til greina og aðlagaði verklag sitt að því.“

Fram kemur í svarinu að staða Íslands í aðildarmálum sé innanlandsmál sem eigi að ræða á Íslandi en ekki innan framkvæmdastjórnar ESB.

Umsókn Íslands um aðild var lögð fram sumarið 2009 af ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri-grænna. Hlé var gert á viðræðunum í upphafi árs 2013. Ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, sem tók við í kjölfar kosninganna 2013, reyndi að draga umsóknina til baka á Alþingi árið 2014 en féll frá þeim áformum.

Í staðinn sendi Gunnar bréfið árið 2015 fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.

Höf.: Hermann Nökkvi Gunnarsson