Tvö af hverjum þremur einhverfum börnum eru einnig með ADHD. Þetta sýna niðurstöður nýrrar íslenskrar rannsóknar á andlegri heilsu barna og unglinga án þroskahömlunar á Íslandi. Rannsóknin þykir afar sérstæð að því leyti hvað gögnin sem stuðst er við eru stöðluð og ná yfir stóran hóp barna um allt land. Hafa niðurstöðurnar nú verið birtar í Lancet Child and Adolescent Health.
Rannsakendur voru sammála um að gera þyrfti frekari rannsóknir á einhverfum börnum með ADHD en fram til ársins 2013 gátu einhverfa og ADHD ekki farið saman skv. greiningarkerfum. Þá væri einnig mikilvægt að styðja betur við börn og unglinga með fjölbreyttan taugaþroska en kvíði og kækjaraskanir voru mun algengari meðal þeirra en barna án fjölbreytileika í taugaþroska. „Mér finnst það segja svo mikið um hvernig þessi hópur barna og unglinga er að kljást við umhverfið dagsdaglega – kröfurnar sem gerðar eru til þeirra. Þau upplifa að þau ráði ekki við það umhverfi sem þau eru sett í,“ segir Dagmar Kristín Hannesdóttir, ein rannsakenda. » 16-17