Arnar Þór Jónsson
Stjórnarskrá lýðveldisins byggist ótvírætt á því að uppspretta ríkisvaldsins sé hjá þjóðinni. Af þessu leiðir að engin stofnun og enginn maður getur farið með ríkisvald hérlendis nema það sé beinlínis runnið frá þjóðinni sjálfri. Allir íslenskir ríkisborgarar eiga rétt á að taka þátt í að semja lögin sem gilda eiga hér á landi, annaðhvort sjálfir eða með kjörnum fulltrúum. Þannig má segja að lögin birti almannaviljann. Kjölfesta íslensku stjórnarskrárinnar er samkvæmt þessu vald þjóðarinnar og réttur hennar til sjálfsákvörðunar. Alþingismenn hafa ekkert umboð til að framselja lagasetningarvaldið í hendur annarra. Þetta leiðir af rótgrónum meginreglum á sviði umboðsréttar, sbr. einnig ákvæði 47. gr. stjskr. sem er til áminningar um að enginn má fara með löggjafarvald á Íslandi sem ekki hefur unnið drengskaparheit að stjórnarskránni og þannig lýst hollustu við lýðveldið Ísland.
Lýðræðislegt vélræði
Í yfir þrjátíu ár hefur Alþingi skrifað upp á hömlulausa innleiðingu tugþúsunda blaðsíðna af erlendu regluverki á grundvelli EES-samningsins. Þetta hefur verið gert án nokkurrar viðunandi umræðu, án nauðsynlegrar aðlögunar til hagsbóta fyrir Íslendinga og án nokkurs viðnáms. Þetta aðgerðaleysi hefur ekki aðeins grafið undan stjórnskipulegu hlutverki Alþingis heldur umbreytt Alþingi í sjálfvirka stjórnsýslustofnun fyrir erlenda löggjöf.
Sú einstefna á sviði löggjafar sem hér um ræðir hefur valdið því að umfang gildandi réttar á Íslandi hefur margfaldast frá innan við 10.000 bls. árið 1992 upp í 60.000-90.000 bls. árið 2025. Áætlað er að Ísland hafi á þessu tímabili innleitt um 25.000 gerðir ESB í íslenskan rétt. Skriffinnum á Íslandi hefur fjölgað mjög á sama tíma, en verksvið þeirra takmarkast um leið, því krafan um réttarlegt samræmi gerir að verkum að ekki má hrófla við efni ESB-reglnanna. Nú sem fyrr er iðjuleysið rót alls ills – og í iðjuleysinu sem fylgt hefur því að útvista löggjafarvaldinu hafa alþingismenn tileinkað sér þann ósið að blýhúða um þriðjung þessa innflutta regluverks án nokkurs sérstaks umboðs eða sjáanlegrar nauðsynjar. Allt hefur þetta valdið því að Íslendingar sitja eftir með útbólgið regluverk, sem auk þess er iðulega ritað á illskiljanlegu stofnanamáli. Þannig hefur brostið á pappírs-stormur sem gerir regluverkið ógagnsætt og óaðgengilegt íslenskum borgurum og fyrirtækjum.
Afsal þingræðis
Svo sem fyrr segir er gildandi lögum ætlað að endurspegla vilja almennings og alþingismönnum er ætlað það hlutverk að verja hagsmuni kjósenda í þessu samhengi. Þegar Alþingi er hætt að endurskoða, aðlaga, afmarka og rökræða með markvissum hætti þær reglur sem verið er að leiða í lög á Íslandi, þá er það í raun ekki að stunda löggjafarstarf, heldur að afgreiða og meðhöndla reglur sem stafa frá erlendu framkvæmdarvaldi. Með frumvarpinu um bókun 35 er verið að leggja til að framvegis gildi hér sú almenna regla að þessi erlendu stjórnvaldsfyrirmæli, sem innleidd hafa verið hér hömlulaust áratugum saman og innihalda þúsundir skuldbindinga fyrir Ísland á grundvelli EES, skuli að meginreglu ganga framar íslenskum lögum! Með öllu þessu er verið að gengisfella fullveldi Íslands og umbreyta því úr því að vera áþreifanlegt og lifandi yfir í innihaldslaust form og lífvana „serimóníur“ á Alþingi.
Lög sett án umræðu – innantómt fullveldi
Sú þróun sem hér hefur verið lýst felur ekki í sér lagalega hagræðingu, heldur er hér um að ræða kerfisbundinn flutning á lagasetningarvaldi úr landi. Í stað þess að standa vörð um íslenska réttarhefð og sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar hefur Alþingi sætt sig við það hlutskipti að gerast nokkurs konar regluvörður við færiband erlendrar reglugerðarverksmiðju.
Með vísan til lagatæknilegra sjónarmiða og þess að EES-samninginn „beri að vernda“ hefur Alþingi opnað allar flóðgáttir fyrir innstreymi reglna frá ESB í íslenskan rétt og þar með heimilað ESB afskipti af íslenskum innanríkismálum, langt umfram það sem nokkur maður sá fyrir í upphafi, þ.e. við gerð EES-samningsins. Allt þetta hefur gerst án nokkurrar raunverulegrar viðleitni til að aðlaga regluverkið íslenskum aðstæðum eða íslenskum hagsmunum.
Íþyngjandi regluverk – vegið að stjórnarskránni
Tvenns konar afleiðingar blasa við:
1. Lagalegur óskýrleiki: Lögfræði hefur alla tíð verið snar þáttur í íslenskri menningu, en nú stöndum við frammi fyrir ofvöxnu regluverki sem stöðugt verður ógagnsærra og óaðgengilegra. Tugþúsundir blaðsíðna af reglum sem eiga uppruna sinn handan úthafsins, sem innleiddar hafa verið hér án nægilegs skýrleika og án samhengis.
2. Stjórnskipulegt niðurbrot: Alþingi fer með löggjafarvaldið samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins og ber á þeim grunni skylda til að annast löggjafarstarfið fyrir opnum tjöldum með hagsmuni lands og þjóðar að leiðarljósi. Með því að innleiða erlent regluverk án nægilegrar aðgæslu, án athugasemda, án þess að beita nokkurn tímann samningsbundnu neitunarvaldi – sem í stuttu máli jafngildir hömlulausri innleiðingu – er Alþingi að brjóta gegn anda stjórnarskrárinnar og bregðast stjórnskipulegu hlutverki sínu.
Afsal lagasetningarvalds
Löggjafarþing sem setur lagareglur án þess að hafa komið nálægt því að semja þær, án viðunandi skilnings á efni og inntaki þessara reglna og án þess að geta breytt þeim til hagsbóta fyrir íbúa landsins, hefur í reynd afsalað sér lagasetningarvaldi sínu og hætt að þjóna sem löggjafarþing í stjórnskipulegri merkingu þess hugtaks. Slíkt þing er orðið að einhvers konar vofu, sálarlausri afturgöngu þess dýrmæta lýðræðislega neista sem Alþingi var stofnað til að verja árið 930. Alþingi nútímans er orðið að móðgun við hugsjón landnámsmanna, Jónasar Hallgrímssonar, Jóns Sigurðssonar, hugsjón þeirra sem stóðu að stofnun fullveldis 1918 og lýðveldisins 1944. Alþingi er orðið að líflausri afgreiðslustofnun þar sem öll áherslan er á formsatriði og þingsköp en lýðræðislegt inntak hefur gleymst og heilagasta hlutverk þingmanna, skuldbindingin við kjósendur og framtíð landsins, hefur orðið aukaatriði.
Á krossgötum
Löngu er orðið tímabært að Íslendingar eigi hreinskiptna rökræðu á opnum vettvangi um hlutverk Alþingis og hvert stefnir með EES-samninginn. Til að endurreisa virðingu Alþingis og verja lýðræðislegar rætur íslensks réttar, þá ber að taka eftirfarandi skref:
1. Að Alþingi veiti virkt og gagnsætt aðhald gagnvart öllum innfluttum lagareglum og öll hagsmunagæsla Íslands innan EES verði stórlega efld.
2. Að regluverk verði markvisst gert minna í sniðum, einfaldara og skiljanlegra.
3. Að stjórnskipulegt hlutverk Alþingis verði styrkt, sérstaklega hvað varðar skyldu þess til að móta lögin með hagsmuni lands og þjóðar að leiðarljósi í stað þess að innleiða sjálfkrafa og hömlulaust lagareglur sem búnar hafa verið til erlendis.
4. Samhliða öllu þessu þarf að taka til alvarlegrar skoðunar hvort EES-samningurinn er farinn að ganga svo nærri fullveldi og sjálfstæði Íslands að óumflýjanlegt sé orðið að segja honum upp.
Aðeins þannig getur Alþingi aftur orðið sverð og skjöldur íslensku þjóðarinnar – ekki óvirk endastöð á löngu færibandi erlendrar reglugerðarverksmiðju.
Höfundur er lögmaður og lýðræðissinni.