This is a modal window.
Beginning of dialog window. Escape will cancel and close the window.
End of dialog window.
Forseti Alþingis hefur beitt kjarnorkuákvæði þingskaparlaga gegn minnihlutanum á þingi. Starfsemi þess er í uppnámi í kjölfarið. Aukaþáttur af Spursmálum fer í að greina hina alvarlegu stöðu.
Átök milli meirihluta og minnihluta á þingi tóku nýja og óvænta stefnu í kjölfar þess að Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og einn af varaforsetum Alþingis, frestaði þingfundi á tólfta tímanum síðastliðið miðvikudagskvöld.
Í kjölfarið flutti Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra, fordæmalaust ávarp þar sem hún lýsti því yfir að meirihluti þingheims hefði tekist á hendur það hlutverk að verja íslenska lýðveldið gegn minnihlutanum.
Hildur Sverrisdóttir mætir í Spursmál og ræðir aðdragandann að þessari atburðarás og eftirleik hennar.
Að loknu samtali við Hildi mæta þeir Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi ráðherra og Einar K. Guðfinnsson fyrrverandi ráðherra og forseti Alþingis.
Þeir hafa marga fjöruna sopið í hinni íslensku pólitík og þekkja söguna langt aftur.
Fróðlegt verður að heyra þeirra álit á þeim atburðum sem nú hafa orðið og virðast ætla að móta alla stjórnmálaumræðu í landinu á komandi misserum.
Kristrúnu Frostadóttur var boðið í þáttinn og gerð tilraun til þess að hafa samband við hana sjálfa og aðstoðarmann hennar. Það bar engan árangur.