Þjóðmálin
10. febrúar 2025
Niðurstöður fjölmargra rannsókna sem gerðar hafa verið á norðurslóðum á undanförnum árum varpa nýju ljósi á kolefnisbindingu í ræktuðum skógi annars vegar og graslendi hins vegar. Komið hefur í ljós að ræktaðir skógar á norðurslóðum, til dæmis, í Svíþjóð og Finnlandi hafa á síðustu árum ekki bundið kolefni, heldur jafnvel losað kolefni. Þannig er kolefnisbinding með skógrækt sennilega ekki sú áhrifaríka aðferð sem hún hefur verið talin vera, í samanburði við aðra valkosti.
Frumniðurstöður úr rannsókn sem unnin var á Íslandi í fyrra sýna að við friðun lands dregur úr kolefnisbindingu þess. Anna Guðrún Þórhallsdóttir, prófessor í landnýtingu við háskólann á Hólum í Hjaltadal stýrði rannsókninni. Miðaði rannsóknin að því að kanna kolefnisbindinu á beitarlandi, samanborið við friðað land. Niðurstöðurnar eru afgerandi. Beitarlandið stuðlar að mun meiri kolefnisbindingu en friðaða landið. Anna Guðrún er gestur Dagmála Morgunblaðsins í dag þar sem hún ræðir niðurstöðurnar og hvað þær í raun þýða.
Rannsóknin sem hún leiddi er hluti af alþjóðlegu verkefni sem kallast ExGraze. Þessi rannsókn sem framkvæmd var á 34 stöðum hér á landi síðastliðið sumar gefur sambærilegar niðurstöður og fengist hafa í til að mynda í nýrri rannsókn sem var gerð í Skotlandi.
Skógrækt hér á landi hefur aukist mikið á þessari öld og oftar en ekki undir þeim formerkjum að með henni sé stuðlað að aukinni kolefnisbindingu. Nú virðist annað komið í ljós og vekja þessar niðurstöður upp spurningar við hið svokallaða loftslagsbókhald Íslands (LULUCF).
En hvaðan koma þessar hugmyndir um að skógrækt sé best til þess fallin að auka kolefnisbindingu og þar með liður í baráttunni gegn loftslagsbreytingum?
Anna Guðrún nefnir tvennt sem mögulega skýringu. Þegar sest var yfir þessi mál af loftslagspanelnum IPCC, sem kenndur er við Sameinuðu þjóðirnar var mjög lítið um vísindamenn úr norðanverðri Evrópu í þeim hópi. Fyrst og fremst var um að ræða vísindamenn úr sunnanverðri Evrópu. Svo er það hitt að nýjar rannsóknir með betri mælitækjum gefa aðrar niðurstöður en áætlanir hafa gert ráð fyrir.
Hún telur rétt að staldra við og skoða betur þá skógrækt sem við höfum ráðist í og áformuð eru. Hún deilir þar skoðun með Sveini Runólfssyni, fyrrum landgræðslustjóra sem segir í grein í nýjasta tölublaði Bændablaðsins að stöðva verði þegar í stað „skógræktargrænþvott hér á landi.“ Fyrirsögn greinar Sveins er Kolefnisskógrækt á villigötum.
Anna Guðrún nefnir fleiri ástæður þess að staldra þurfi við og endurmeta skógræktaráform. Nefnir hún þar skyldur Íslands um það að vernda lífrænan fjölbreytileika, alþjóðlega ábyrgð Íslands varðandi heimkynni mófugla og ekki síst að Íslands sé síðasta vígi úthagans í Evrópu.