Dægurmál
28. apríl 2025
Seint í september haustið 2007 breyttist líf hans varanlega. Jón Gunnar Benjamínsson var í gæsaveiðiferð fyrir austan. Þeir félagarnir óku Hellisheiði eystri í aftakaveðri á leið til Egilsstaða. Jón Gunnar var í aftursætinu og þar voru ekki bílbelti. Bíllinn fór út af og valt. Hann hlaut lífshættulega áverka. Ósæðin rifnaði og tveir hryggjarliðir mölbrotnuðu. Það tókst að bjarga lífi hans en hann hefur notast við hjólastól frá slysinu.
Eina skiptið sem Jón Gunnar grét var nóttin eftir að honum var tilkynnt að hann myndi aldrei ganga aftur. Þá syrgði hann lífið sem hann þekkti og elskaði. Veiðiskapur er honum í blóð borinn og þar var mesti óttinn og stærsta sorgin. Bróðir Jóns Gunnars hafði lamast nokkrum árum áður, einnig eftir slys. Það er Bergur Þorri Benjamínsson, ötull baráttumaður fyrir réttindum fatlaðra svo eitthvað sé nefnt.
Jón Gunnar tók lömunina á kassann. Hann hóf rekstur á eigin ferðaþjónustu sem tók mið af þörfum fatlaðra. Nú er hann að kynna nýtt verkefni sem mun breyta lífi fólks sem glímir við fötlum af ýmsum toga. Hann er að flytja inn rafmagnsdrifið torfæruhjól sem opnar nýjar víddir fyrir fólks í hans stöðu. Græjan er hönnuð af norskum verkfræðingi sem á lamaða konu. Jón Gunnar stefnir að því í vor og sumar að heimsækja veiðistaði sem hann var búinn að afskrifa og kveðja. Í þætti dagsins segir hann sína sögu og ræðir nýja töfratækið sem færir honum og líkast til mörgum öðrum meiri lífsgæði.