Halda í sakleysið í nýjum veruleika

Formaður Landssambands lögreglumanna telur að fjölga þurfi lögreglumönnum um 200 og það strax til að bregðast við þeim veruleika sem blasir við á Íslandi. Hann vonast til þess að loforð ríkisstjórnarinnar um að fjölga lögreglumönnum um fimmtíu gangi eftir en segir ljóst að kalla þurfi til mannskap sem hefur hætt ef það á að ganga eftir. Fjölnir Sæmundsson á að baki aldarfjórðung í ýmsum deildum lögreglunnar og segir hann virðingarleysi gagnvart lögreglu og hennar aðgerðum hafa aukist. Hann nefnir tvo atburði sem hafi breytt miklu. Hrunið á Íslandi færði viðmið til sérstaklega þegar horft er til mótmæla og framgöngu í þeim. Löggæsla á Norðurlöndum breyttist við Breivik fjöldamorðin í Noregi. Í opinskáu viðtali í Dagmálum í dag fer Fjölnir yfir þær breyttu áskoranir sem lögregla glímir við. Hótanir í garð lögreglumanna og fjölskyldna þeirra hafa aukist og þekkt eru dæmi um að fólk komi hingað til lands frá Svíþjóð gagngert til að fremja skemmdarverk á eigum lögreglufólks og standa við hótanir. Norska löreglan vill vopnvæðast eftir að norskur lögreglumaður var skotinn í reglubundnu eftirliti. Fjölnir segir íslenska lögreglumenn vilja í lengstu lög halda í sakleysið sem einkennt hefur íslenskt samfélag.

Viðtalið við Kristrúnu minnisstætt

​Þórarinn Hjartarson, hlaðvarpsstjórnandi Einnar pælingar, segir að viðtal sem hann tók við Kristrúnu Frostadóttur, formann Samfylkingarinnar, í febrúar á síðasta ári sé honum enn minnisstætt. Í nýjasta þætti Dagmála er það viðtal rifjað upp en einnig er rætt um stöðu hlaðvarpa á Íslandi, áhrif þeirra á þjóðfélagsumræðuna og fleira.

Forystuskipti í Sjálfstæðisflokki

Guðrún Hafsteinsdóttir og Jens Garðar Helgason voru kjörin í forystu Sjálfstæðisflokksins á landsfundi í liðinni viku, Björn Ingi Hrafnsson og Nanna Kristín Tryggvadóttir ræða þýðingu þess og afleiðingar fyrir pólitíkina.

Bæjarstjórar tala um áskoranir í skólamálum

Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, og Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, ræða þær áskoranir sem við blasa í menntamálum og nýja kjarasamninga kennara.