Halda í sakleysið í nýjum veruleika

Formaður Landssambands lögreglumanna telur að fjölga þurfi lögreglumönnum um 200 og það strax til að bregðast við þeim veruleika sem blasir við á Íslandi. Hann vonast til þess að loforð ríkisstjórnarinnar um að fjölga lögreglumönnum um fimmtíu gangi eftir en segir ljóst að kalla þurfi til mannskap sem hefur hætt ef það á að ganga eftir. Fjölnir Sæmundsson á að baki aldarfjórðung í ýmsum deildum lögreglunnar og segir hann virðingarleysi gagnvart lögreglu og hennar aðgerðum hafa aukist. Hann nefnir tvo atburði sem hafi breytt miklu. Hrunið á Íslandi færði viðmið til sérstaklega þegar horft er til mótmæla og framgöngu í þeim. Löggæsla á Norðurlöndum breyttist við Breivik fjöldamorðin í Noregi. Í opinskáu viðtali í Dagmálum í dag fer Fjölnir yfir þær breyttu áskoranir sem lögregla glímir við. Hótanir í garð lögreglumanna og fjölskyldna þeirra hafa aukist og þekkt eru dæmi um að fólk komi hingað til lands frá Svíþjóð gagngert til að fremja skemmdarverk á eigum lögreglufólks og standa við hótanir. Norska löreglan vill vopnvæðast eftir að norskur lögreglumaður var skotinn í reglubundnu eftirliti. Fjölnir segir íslenska lögreglumenn vilja í lengstu lög halda í sakleysið sem einkennt hefur íslenskt samfélag.

Spila sem hljóðskrá:

Til baka á forsíðu Dagmáls »