Umbúðalaust
23. október 2024
Einn þekktasti geðlæknir þjóðarinnar vinnur mikið með fólki sem glímir við ótta og kvíða vegna þess að ellin sækir að og dauðinn verður raunverulegri og færist nær. Óttar Guðmundsson segir mikilvægt að lifa í núinu og nýta daginn. „Núna er ég hættur í megrun,“ segir geðlæknirinn og tekur það til marks um að lifa lífinu í dag. Hann segist hafa verið í megrunum af og til áratugum saman. Nú er hann hættur slíku. Hann lætur eftir sér að fá sér ís á kvöldin þegar sykurfallið vekur hjá honum óstöðvandi löngun.
Óttar hefur verið viðloðandi fjölmiðla áratugum saman og hefur krufið þjóðarsálina og heilbrigði hennar. „Þetta væl í þjóðinni er mjög skrítið,“ segir hann nú þegar við höfum það betra en nokkru sinni fyrr. Hann segir þetta pirra sig.
Óttar fer um víðan völl í þætti dagsins og ræðir þar margvíslegu greiningar sem nú tíðkast. Kulnun, ADHD og margt fleira.
Ný bók Óttars um skáldið Sigurð Breiðfjörð ber á góma en bókin ber titilinn Kallaður var hann kvennamaður. Hressandi þáttur um viðkvæm mál og almenn.