Líkleg verklok þjóðarsjúkrahúss 2029

Einhver flóknasta, stærsta og kostnaðarsamasta framkvæmd sem íslenska ríkið hefur ráðist í er bygging þjóðarsjúkrahúss. Um er að ræða nokkrar byggingar og hefur ein þeirra, sjúkrahótel þegar verið tekin í notkun. Gunnar Svavarsson er framkvæmdastjóri opinbera hlutafélagsins sem stofnað var um verkefnið. Hann er gestur Dagmála í dag og fer yfir stöðu verkefnisins og áætluð verklok. Eins og fyrr segir er framkvæmdin flókin og er stuðst við aðstoð sérfræðinga frá mörgum löndum. Meðferðarkjarninn, hið eiginlega sjúkrahús og aðrar bygginar sem tengjast starfseminni verður tilbúinn í notkun árið 2029 gangi áætlanir eftir. Þegar talað er um flókna framkvæmd er rétt að hafa í huga verkefnið snýst líka um tækjakost sem að stórum hluta verður endurnýjaður. Þegar kemur að sjálfum flutningi á nýja Landspítala er það einnig flókið verkefni og sérfræðingar á því sviði munu aðstoða við skipulag og framkvæmd.

Ný vitneskja um pýramída, frummenn og landnám

Saga Heiðrúnar sem fannst látin í Hellisskúta í ríflega 600 metra hæð yfir sjávarmáli á Austfjörðum verður aldrei upplýst. Fornleifafræðingar vita þó ýmislegt um þessa ungu ríkulega búnu konu. Einn þeirra sem kom að fundi og uppgreftri Heiðrúnar er Sigurður Bergsteinsson fornleifafræðingur og verkefnastjóri hjá minjastofnun. Hann er gestur okkar í dag og ræðir fund Heiðrúnar, stöðu fornleifauppgraftrar í sumar ásamt nýjum stórmerkilegum uppgötvunum í tengslum við byggingu pýramídanna í Egyptalandi. Helstu fornminjarannsóknir í sumar fara fram við Fjörð í Seyðisfirði, Stöð í Stöðvarfirði og Odda á Rangárvöllum. Fjármagn til að sinna rannsóknum á þessu sviði er af mjög skornum skammti. Þannig var einungis hægt að afgreiða þriðjung umsókna um styrki til rannsókna í sumar. Úthlutað var um 80 milljónum en sótt um 255 milljónir.

Er guð til? En djöfullinn? Kraftaverk?

Nýkjörinn biskup Íslands, Guðrún Karls Helgudóttir ræðir lífið og tilveruna ásamt trúnni í þætti dagsins. Hún tekur formlega við embætti í byrjun júlí en vígslan verður í september. Séra Guðrún trúir á kraftaverk og hefur orðið vitni að slíku. Þá vill hún efla þjóðkirkjuna og að allir sem eru í henni og að þessu fjölmennasta samfélagi landsins beri höfuðið hátt. Hún ætlar að færa biskupsembættið nær þjóðinni og ætlar sér að setja upp skrifstofu í hverjum landshluta í eina viku á hverju ári. Hún hleypur maraþon reglulega og hefur gaman af að prjóna og lesa glæpasögur.

Flottasta dánarbúið eða lifa og njóta?

Lífeyrir, ellilífeyrir, séreignarsparnaður og viðbótarlífeyrissparnaður. Allt eru þetta hugtök sem valda ólíkum hughrifum hjá okkur. Flest okkar munu þurfa að reiða sig á slíkar uppsafnaðar greiðslur á síðari hluta ævinnar. En hvenær á að hefja töku lífeyris og hvenær má vitja uppsafnaðra réttinda af þessu tagi? Björn Berg Gunnarsson, sjálfstætt starfandi fjármálaráðgjafi hefur sérhæft sig í þessum málum og fer hér yfir þá kosti sem í boði eru á hlaðborði lífeyrisréttinda. Sum þessara réttinda erfast á meðan að önnur eru hluti af samtryggingunni sem gagnast þeim sem kerfið okkar á að grípa. Björn Berg segir að mörgum sé umhugað um að tryggja sem best rétt afkomenda sinna á meðan að aðrir horfa til þess að njóta á meðan að heilsan leyfir. Ungt fólk í dag getur orðið vellauðugt ef það hugsar núna út í þessi mál og tekur ákvarðanir til framtíðar þar sem hámarkað er hverju verður safnað og hvernig, til efri áranna. Með því að kynna sér þessi mál er fólk án efa á besta tímakaupi sem því býðst á ævinni. Allt um lífeyrismál út frá forsendum lífeyrisþega í þætti dagsins.