„Pirrar mig þessi væll í þjóðinni“

Einn þekktasti geðlæknir þjóðarinnar vinnur mikið með fólki sem glímir við ótta og kvíða vegna þess að ellin sækir að og dauðinn verður raunverulegri og færist nær. Óttar Guðmundsson segir mikilvægt að lifa í núinu og nýta daginn. „Núna er ég hættur í megrun,“ segir geðlæknirinn og tekur það til marks um að lifa lífinu í dag. Hann segist hafa verið í megrunum af og til áratugum saman. Nú er hann hættur slíku. Hann lætur eftir sér að fá sér ís á kvöldin þegar sykurfallið vekur hjá honum óstöðvandi löngun. Óttar hefur verið viðloðandi fjölmiðla áratugum saman og hefur krufið þjóðarsálina og heilbrigði hennar. „Þetta væl í þjóðinni er mjög skrítið,“ segir hann nú þegar við höfum það betra en nokkru sinni fyrr. Hann segir þetta pirra sig. Óttar fer um víðan völl í þætti dagsins og ræðir þar margvíslegu greiningar sem nú tíðkast. Kulnun, ADHD og margt fleira. Ný bók Óttars um skáldið Sigurð Breiðfjörð ber á góma en bókin ber titilinn Kallaður var hann kvennamaður. Hressandi þáttur um viðkvæm mál og almenn.

Tjónið og sorgin er gríðarlegt

Norsk yfirvöld lokuðu nánast fyrirvaralaust fjölmörgum af bestu laxveiðiám landsins í vor. Þetta kom eins og reiðarslag fyrir þúsundir veiðimanna víða að úr heiminum. Fjöldagjaldþrot blasa við mörgum rekstraraðilum og tjónið er margþætt og mikið. Árni Baldursson var staddur í Noregi þegar hörmungarnar dundu yfir. Sjálfur var hann að glíma við ömurlega stöðu þegar hann fótbrotinn skakklappaðist og þráaðist við í von um að geta veitt bestu ár Noregs. Á endanum var hann neyddur í röntgenmyndatöku sem leiddi í ljós að vinstri öklinn var mölbrotinn. Árni Baldursson ræðir þessar tvíþættu hörmungar sem hann gekk í gegnum í Noregi, í þætti dagsins. Klukkustund með Árna Baldurssyni er góð byrjun á vinnuvikunni.

Líkleg verklok þjóðarsjúkrahúss 2029

Einhver flóknasta, stærsta og kostnaðarsamasta framkvæmd sem íslenska ríkið hefur ráðist í er bygging þjóðarsjúkrahúss. Um er að ræða nokkrar byggingar og hefur ein þeirra, sjúkrahótel þegar verið tekin í notkun. Gunnar Svavarsson er framkvæmdastjóri opinbera hlutafélagsins sem stofnað var um verkefnið. Hann er gestur Dagmála í dag og fer yfir stöðu verkefnisins og áætluð verklok. Eins og fyrr segir er framkvæmdin flókin og er stuðst við aðstoð sérfræðinga frá mörgum löndum. Meðferðarkjarninn, hið eiginlega sjúkrahús og aðrar bygginar sem tengjast starfseminni verður tilbúinn í notkun árið 2029 gangi áætlanir eftir. Þegar talað er um flókna framkvæmd er rétt að hafa í huga verkefnið snýst líka um tækjakost sem að stórum hluta verður endurnýjaður. Þegar kemur að sjálfum flutningi á nýja Landspítala er það einnig flókið verkefni og sérfræðingar á því sviði munu aðstoða við skipulag og framkvæmd.

Ný vitneskja um pýramída, frummenn og landnám

Saga Heiðrúnar sem fannst látin í Hellisskúta í ríflega 600 metra hæð yfir sjávarmáli á Austfjörðum verður aldrei upplýst. Fornleifafræðingar vita þó ýmislegt um þessa ungu ríkulega búnu konu. Einn þeirra sem kom að fundi og uppgreftri Heiðrúnar er Sigurður Bergsteinsson fornleifafræðingur og verkefnastjóri hjá minjastofnun. Hann er gestur okkar í dag og ræðir fund Heiðrúnar, stöðu fornleifauppgraftrar í sumar ásamt nýjum stórmerkilegum uppgötvunum í tengslum við byggingu pýramídanna í Egyptalandi. Helstu fornminjarannsóknir í sumar fara fram við Fjörð í Seyðisfirði, Stöð í Stöðvarfirði og Odda á Rangárvöllum. Fjármagn til að sinna rannsóknum á þessu sviði er af mjög skornum skammti. Þannig var einungis hægt að afgreiða þriðjung umsókna um styrki til rannsókna í sumar. Úthlutað var um 80 milljónum en sótt um 255 milljónir.