Anna Marsibil, ritstjóri Monitor, vill sjá fleiri tónlistarmenn á þjóðhátíð í Eyjum sem ekki skarta utanáliggjandi kynfærum. Pistill hennar fer hér að neðan:
Kæra þjóðhátíðarnefnd.
Mér finnst ákaflega sorglegt að hugsa til þess að aðeins fimm prósent tónlistarfólks á þjóðhátíð í fyrra hafi verið kvenkyns. Aðeins þrjár konur komu fram í kvölddagskránni í Herjólfsdal og nú þegar tilkynnt hefur verið um átta hljómsveitir eru aftur aðeins þrjár konur á meðal flytjenda. Ég er viss um að konurnar voru ekki viljandi skildar útundan og það tónlistarfólk sem kom fram er allt þrusuflott en ég get ekki hrist af mér þá tilfinningu að hátíðin hefði verið enn flottari ef fólk sem ekki skartar utanáliggjandi kynfærum hefði átt fleiri fulltrúa á sviðinu.
Þið hafið sagt að þið viljið vera með vinsælustu og bestu tónlistarmenn landsins og mér finnst það frábær stefna enda eru margar konur meðal vinsælustu og bestu tónlistarmanna landsins. Þið virðist hinsvegar eiga í einhverjum erfiðleikum með að finna þær en sem betur fer hafið þið enn tækifæri til að bæta við hljómsveitum og listamönnum.
Ég bjó til stuttan lista yfir hljómsveitir og tónlistarmenn sem eiga góðu fylgi að fagna og skarta kvenfyrirmyndum. Ég held að flestir af þessum listamönnum eigi alveg jafnmikið heima á Þjóðhátíð og þeir sem þegar hefur verið tilkynnt um.
Því sýnilegri sem íslenskar tónlistarkonur eru því líklegra er að íslenskar stúlkur upplifi að það sé pláss fyrir þær á íslensku tónlistarsenunni. Þjóðhátíð í Eyjum er einn stærsti tónlistar- og skemmtanaviðburður landsins og því er það sérstaklega mikilvægt að þjóðhátíðarnefnd pæli vel í því hvort ekki sé unnt að gera alveg eins góða, eða jafnvel betri hátíð með aðeins fleiri stelpum á sviðinu.
Við eigum ótrúlega mikið af frambærilegum tónlistarkonum og það vantar margar þeirra inn á þennan stutta lista en vonandi veitir hann ykkur innblástur, elskulega þjóðhátíðarnefnd.
Anna Marsý
annamarsy@monitor.is