Löggumótið

Kristján Kristjánsson

Löggumótið

Kaupa Í körfu

Knattspyrna Akureyri | Verðir laganna voru óvenju fjölmennir á Akureyri um helgina en þá stóð Íþróttasamband lögreglumanna fyrir öldungamóti í innanhússknattspyrnu í KA-heimilinu. Alls mættu níu lið frá stærstu lögregluembættum landsins til leiks og voru keppendur um 60 talsins. Mótið, sem haldið var í 21. skipti, fór vel fram í alla staði, "enda eru lögreglumenn mjög friðsamir og yfirvegaðir menn," sagði Hermann Karlsson lögreglumaður á Akureyri. "Og allir keppendur gengu óstuddir úr húsi." Það voru liðsmenn lögreglunnar í Keflavík sem fóru með sigur af hólmi, eftir harða baráttu við annað af tveimur liðum lögreglunnar í Reykjavík. Liðin voru jöfn að stigum en Keflvíkingarnir sigruðu á betri markatölu. Jón Bragi Arnarson úr Vestmannaeyjum og Runólfur Þórhallsson úr Reykjavík urðu markahæstu menn mótsins, með 21 mark hvor og Runólfur var jafnframt valinn besti leikmaðurinn. Prúðasta liðið kom úr Hafnarfirði og Eyjamenn hlutu Sveinsbikarinn fyrir flest skoruð mörk en um er að ræða minningarbikar um Svein heitinn Björnsson lögreglumann og listmálara úr Hafnarfirði. Þá var Sigurður Benjamínsson heiðraður sem elsti leikmaður mótsins, 58 ára gamall, en hann mætti til leiks ásamt syni sínum Þóri og léku þeir feðgar hvor með sínu liðinu úr Reykjavík. MYNDATEXTI: Snilldartaktar: Lögreglumenn frá Ísafirði og Reykjavík etja kappi á öldungamótinu í KA-heimilinu.

Frekari upplýsingar

Ljósmyndarar

Teiknarar