Mótmæli við kínverska sendiráðið

Mótmæli við kínverska sendiráðið

Kaupa Í körfu

Falun Gong mótmælir við kínverska sendiráðið NOKKRIR meðlimir úr Falun Gong mótmæltu í gær fyrir utan sendiráð Kínverja við Víðimel í tengslum við opinbera heimsókn varaforseta kínverska þingsins, Wang Zhaoguo, hingað til lands. Þingforsetinn er staddur hér á landi í boði Halldórs Blöndal, forseta Alþingis. Að sögn Þórdísar Hauksdóttur, talsmanns Falun Gong á Íslandi, var tilgangurinn með friðsamlegri mótmælastöðu að minna fólk á að enn færu fram hrottaleg mannréttindabrot í Kína sem bitnuðu á saklausu fólki. Kínverjar hefðu sýnt með aðgerðum sínum að þeir hefðu áhuga á að færa slíkt ofbeldi út fyrir landamærin. Sem dæmi hefði Falun Gong iðkandi nýverið verið særður í skotárás í Suður-Afríku þegar hann hugðist leggja fram kæru gegn háttsettum kínverskum leiðtoga sem staddur var þar í landi, fyrir mannréttindabrot. Tugir manna ekki fengið flugmiða endurgreidda Falun Gong hefur ítrekað óskað eftir viðræðum við íslensk stjórnvöld í tengslum við komu Jiang Zemin, forseta Kína hingað til lands fyrir tveimur árum þegar fjölda fólks var meinað að koma til landsins. Þórdís segir að tugir manna sem vísað var frá hafi enn ekki fengið endurgreidda flugmiða. MYNDATEXTI: Heimsókn þingforseta mótmælt: Starfsmenn kínverska sendiráðsins hugðust í fyrstu skipta sér af mótmælunum, en ákváðu síðan að bjóða íslenskum fjölmiðlum inn fyrir og þiggja te sem þeir afþökkuðu.

Frekari upplýsingar

Ljósmyndarar

Teiknarar