Tvær holur boraðar við Kröfluvirkjun

Birkir Fanndal Haraldsson

Tvær holur boraðar við Kröfluvirkjun

Kaupa Í körfu

Mývatnssveit | Boraðar hafa verið tvær holur á háhitasvæðinu við Kröflu í sumar. Holurnar eru tæplega 2.500 metrar á dýpt en ekki liggur fyrir hvaða orku þær skila. Borinn Jötunn kom í Kröflu um miðjan apríl frá Azoreyjum. Hann hefur nú stefnuborað tvær holur á Kröflusvæði. Önnur er í Sandabotnaskarði, um 2,5 kílómetra frá Kröfluvirkjun, í um 450 metra hæð. Dýpt hennar er 2.453 metrar. Hin holan er við Rauðhól, í um 500 metra hæð og aðeins um einn kílómetra frá virkjun. Lengd hennar er 2.490 metrar. Framkvæmd borana hefur gengið vel og áfallalaust. Nokkur tími mun líða þar til árangur þessara borverkefna kemur í ljós. Nú hefur Jötunn verið fluttur norður á Þeistareyki þar sem ætlunin er að stefnubora tvær holur í sumar. Að þeim verkefnum loknum mun Jötunn verða fluttur í Bjarnarflag til að bora eina holu, seint í haust.

Frekari upplýsingar

Ljósmyndarar

Teiknarar