Afturelding - Haukar - Bikar

Afturelding - Haukar - Bikar

Kaupa Í körfu

Matthías Árni Ingimarsson, fyrirliði Hauka, tók við Íslandsbikarnum á Varmá í gærkvöldi eftir að Haukar unnu Aftureldingu í þriðju viðureign liðanna um Íslandsmeistaratitilinn, 27:24, en Afturelding hafði verið marki yfir í hálfleik, 11:10. Það fór vel á því að þessi rótgróni Hafnfirðingur, sem í rennur blóð bæði frá Haukum og FH, tæki við bikarnum, þeim fyrsta sem Haukar vinna í fimm ár og þeim tíunda í sögu karlaliðs félagsins. Íslandsmeistararnir voru sterkari þegar á leið leikinn í gær. Þeir gerðu færri mistök en Mosfellingar, þeir voru með sjálfstraustið og sigurviljann þegar mest á reyndi. Haukar byrjuðu leikinn betur og höfðu yfirhöndina framan af. Afturelding skoraði hins vegar þrjú síðustu mörk fyrri hálfleiks og virtist vera komin á skrið. Framan af síðari hálfleik var um jafnan leik að ræða þar sem Haukar voru þó heldur með frumkvæðið þótt aldrei væri munurinn mikill. Afturelding komst yfir, 17:16, þegar átján mínútur voru til leiksloka. Mosfellingar virtust vera komir á bragðið. Patrekur Jóhannesson, þjálfari Hauka, tók leikhlé og messaði yfir sínum mönnum. Sú messa skilaði árangri. Tíu mínútum síðar var munurinn orðinn fimm mörk, 22:17. Úrslitin virtust ráðin. Mosfellingar reyndu hvað þeir gátu en í þau fáu skipti sem þeir áttu möguleika á að minnka muninn eða hleypa spennu í viðureignina voru þeir sjálfum sér verstir. Sendingar biluðu og opin færi fóru forgörðum. Lærðu af reynslunni Reynslunni ríkari eru Haukar verðskuldaðir Íslandsmeistarar í handknattleik karla þetta árið. Já, reynslunni ríkari. Patrekur Jóhannesson og lærisveinar hans máttu bíta í það súra epli að sjá Eyjamenn lyfta Íslandsbikarnum á heimavelli Hauka fyrir ári eftir eftirminnilega fimm leikja rimmu. Það keppnistímabil voru Haukar með besta liðið lengst af en Eyjamenn komu aftan að flestum og komu, sáu og sigruðu. Patrekur og félagar lærðu af reynslunni og mættu tilbúnir til leiks að þessu sinni. Létu lítið fyrir sér fara í deildarkeppninni en sóttu í sig veðrið á endaspretti deildarkeppninnar og gáfu síðan allt í botn þegar að úrslitakeppninni kom. Þá komu þeir aftan að liðunum sem voru fyrir ofan þá í deildinni og unnu þá í öllum viðureignum, fyrst FH í tvígang, þá deildarmeistara Vals í þrígang og loks silfurlið Aftureldingar í þrígang. Haukar töpuðu ekki leik í úrslitakeppninni. Haukar „toppuðu“ á réttum tíma. Varnarleikur þeirra var magnaður alla úrslitakeppnina, Giedrius Morkunas var framúrskarandi í markinu og sóknarleikurinn betri en nokkru sinni áður á leiktíðinni þótt vissulega hafi hann ekki valdið tímamótum í handboltasögunni.

Frekari upplýsingar

Ljósmyndarar

Teiknarar