Vilborg Pólfari - Úlfarsfell

Vilborg Pólfari - Úlfarsfell

Kaupa Í körfu

„Þetta gekk ótrúlega vel. Það mættu um 200 börn og 150 fullorðnir í göngu á Úlfarsfell í gærmorgun til stuðnings ENG-samtökunum (e. Empower Nepali Girls), sem hafa það markmið að mennta fátækar ungar Nepalstúlkur og koma þannig í veg fyrir að þær lendi í mansali,“ segir Vilborg Arna Gissurardóttir pólfari, sem fór fyrir fjallgöngumönnunum á Úlfarsfelli. Hún segir að margir hafi verið að takast á við sína fyrstu áskorun á fjalli og stemningin hafi verið falleg. „Það má segja að kærleikurinn hafi svifið yfir vötnum og margir stoltir þegar þeir náðu á toppinn þar sem þeir fengu verðlaunapening,“ segir Vilborg „Ég var bara aðstoðarmaður, en þær Guðrún Ragna Hreinsdóttir og Guðrún Harpa Bjarnadóttir eru í forsvari fyrir viðburðinum. Það veitir vellíðan að takast á við sjálfan sig og sérstaklega í hópi með öðrum. Ég er viss um að það voru margir brosandi langt fram eftir degi í gær,“ segir Vilborg. Eins og í alvörufjallaferðum voru settar upp grunnbúðir á planinu við Úlfarsfell þar sem boðið var upp á kaffi og hægt að kaupa nepalskan varning. Vilborg segir að veðrið hafi verið gott en hellidemba komið þegar öftustu göngumennirnir komust á toppinn. „Það lét enginn dembuna á sig fá og við erum stolt af öllum sem tóku þátt í þessu með okkur.“ Vilborg, sem er þakklát fyrir það fé sem safnaðist, segir að hún hafi farið með Guðrúnu Hörpu og Guðrúnu Rögnu til Nepals í haust og heimsótt ENG-samtökin og hitt stelpurnar sem samtökin mennta. „Það var ótrúlega gefandi og mögnuð lífsreynsla og við getum nú fylgst með lífi stelpnanna í gegnum Facebook,“ segir Vilborg og bætir við að allir geti gengið á fjöll, líka þeir lofthræddu.

Frekari upplýsingar

Ljósmyndarar

Teiknarar