Landsmót hestamanna 2018 - Víðidalur

Landsmót hestamanna 2018 - Víðidalur

Kaupa Í körfu

Fjórði dagur Landsmóts hestamanna var í gær. Mótið hefur gengið snurðulaust fyrir sig og gætti spennu meðal mótsgesta þar sem riðlarnir eru jafnir og spennandi. Forkeppnum er nú öllum lokið og því er nú keppt í milliriðlum á gæðingavellinum. Það rigndi nánast ekkert á mótsgesti sem má teljast kraftaverk, þó að lofthiti hafi ekki verið hár. Um morguninn fóru fram milliriðlar í unglingaflokki og var þar efst Védís Huld Sigurðardóttir á Hrafnfaxa frá Skeggsstöðum með 8,65. Sjö efstu knaparnir fara beint í A-úrslit sem verða á sunnudaginn. Á kynbótavellinum fóru fram dómar í flokki fimm vetra stóðhesta og viðraði vel fyrir dóma að sögn dómaranna. Spaði frá Stuðlum stendur þar efst eftir daginn með 8,55 í aðaleinkunn. Keppnin var jöfn og spennandi og ljóst að ýmislegt getur enn breyst í yfirlitssýningunum sem verða á föstudaginn. Þá lauk milliriðlum í barnaflokki í gríðarlega jöfnum flokki. Varð að raða þátttakendum í sæti eftir fjölda aukastafa. Varð þar efst Elísabet Vaka Guðmundsdóttir á Náttfara frá Bakkakoti með 8,71. Skemmtilegt er að segja frá því að hún er yngsti knapi mótsins eftir milliriðlaúrslitin, tæplega 10 ára gömul. 15 efstu í barnaflokki fara í úrslit á sunnudaginn. Í Horses of Iceland-tjaldinu fór fram kynning á svokölluðu knapamerkjakerfi, sem er stigskipt nám í hestamennsku. Sýndu útskrifaðir nemendur úr náminu listir sínar í reiðgerði utan við tjaldið og þá helst töltið. Mikið hefur fjölgað á tjaldstæðinu frá því í gær og telja mótshaldarar að enn eigi eftir að fjölga verulega þar á næstu dögum. Á tjaldstæðinu höfðu flestir komið sér fyrir inni í vögnum eða tjöldum enda svalt úti. ninag@mbl.is

Frekari upplýsingar

Ljósmyndarar

Teiknarar