Aðalmeðferð í morðmáli bræðranna á Suðurlandi er á mánudaginn

Aðalmeðferð í morðmáli bræðranna á Suðurlandi er á mánudaginn

Kaupa Í körfu

Aðalmeðferð í máli Vals Lýðssonar hófst í gær fyrir Héraðsdómi Suðurlands, en hann er ákærður fyrir að hafa banað bróður sínum Ragnari Lýðssyni á heimili Vals að Gýgjarhóli II í Bláskógabyggð aðfaranótt 31. mars sl. Samkvæmt ákæru sló hann bróður sinn ítrekað í bæði höfuð og líkama, auk þess að sparka og/eða trampa á honum, meðal annars á höfði. Ragnar hafi hlotið alvarlegan höggáverka ofarlega vinstra megin á enni, sem olli sári á hörundi, blæðingu innan í höfuðkúpu og snöggri breytingu á meðvitundarstigi. Af áverkanum hafi einnig hlotist ógleði, svimi og uppköst sem leitt hafi til þess að hann lést af banvænni innöndun magainnihalds. Í greinargerð Ólafs Björnssonar, verjanda Vals, er þess krafist að hann verði sýknaður af ákæru um manndráp eða sakfelldur fyrir líkamsárás. Þar segir að ekki hafi tekist að sanna ásetning Vals og að hann hafi mögulega ruglast á bróður sínum og innbrotsþjófi í ölæði. Valur hringdi sjálfur í Neyðarlínuna og tilkynnti um bróður sinn liggjandi í blóði sínu á gólfinu. Verjandinn segir ákæruvaldið byggja að miklu leyti á símtalinu, þar sem hann virðist játa. Ekki sé hægt að gera það, enda hafi Vali verið brugðið og hann í annarlegu ástandi.

Frekari upplýsingar

Ljósmyndarar

Teiknarar