Suðurhlíð 38

Suðurhlíð 38

Kaupa Í körfu

KRISTINN Bjarnason, annar af tveimur framkvæmdastjórum byggingarfélagsins Gígant ehf., sem sér um framkvæmdir við byggingu fjölbýlishúss í Suðurhlíð 38 í Reykjavík, segir að samkvæmt nýjum teikningum, sem gerðar voru að kröfu byggingaryfirvalda, sé byggingin nú um 17 cm lægri en samþykkt deiliskipulag leyfir. Að sögn Kristins var salarhæð kjallarans höfð 32 cm lægri en gert var ráð fyrir í upphafi. Þá hefur þakkantur verið lækkaður um 25 cm. Samkvæmt þessu er byggingin 57 cm lægri en upphaflega var gert ráð fyrir í samþykktri byggingarleyfisumsókn. Í henni var kveðið á um að húsið mætti vera 12,4 m á hæð en samþykkt deiliskipulag gerði aftur á móti ráð fyrir að það mætti vera 12 m. Þar sem kjallari var 32 cm lægri en gert var ráð fyrir samkvæmt upphaflegri teikningu var byggingarleyfishafa gert að lækka húsið um tæpa tíu sentimetra og skila inn nýrri og breyttri umsókn. Sem fyrr segir hefur byggingin verið lækkuð um 17 cm og eru teikningarnar nú til skoðunar hjá borgarlögmanni. Kristinn bendir jafnframt á að samkvæmt þessu sé hæð hússins, umfram það sem fram kom á skýringaruppdráttum, sem kynntir voru íbúum á sínum tíma, undir 1,7 metrum. Hann ítrekar það sem fram hefur komið að sá uppdráttur hafi ekkert lögformlegt gildi.

Frekari upplýsingar

Ljósmyndarar

Teiknarar