Vín

Jim Smart

Vín

Kaupa Í körfu

Suðurhluti Frakklands hefur allt sem þarf til að framleiða frábær vín. Einstakt loftslag og langa hefð. Til skamms tíma var hins vegar megnið af framleiðslunni vín í lægstu verðflokkum þar sem meira var lagt upp úr magni en gæðum. Það hefur verið að breytast og stöðugt fleiri toppvín eru framleidd í Languedoc-Roussillon og Provence þótt ekki berist þau hingað til lands. Baron'Arques er líklega fyrsta ofurvínið frá Languedoc sem hér er selt. Þetta er eitt af samstarfsverkefnum Rotschild-fyrirtækisins í Bordeaux (eiganda Mouton-Rothschild), en það fyrirtæki á m.a. heiðurinn af Opus One í Napa (í samstarfi við Mondavi) og Almaviva í Chile (í samstarfi við Concha y Toro). Baron'Arques er gert í samstarfi við vínsamlagið í Arques í Languedoc. Vínið er spennandi samsetning úr Bordeaux-þrúgunum Cabernet Sauvignon, Merlot og Cabernet Franc annars vegar og suður-frönsku þrúgunum Syrah, Grenache og Malbec hins vegar. Vínið er dökkt, með þroskuðum sólberjaávexti, sem enn er ungur, eikað og ristað í nefi. Í munni gefur tannínuppbygging Cabernet-þrúgunnar tóninn, en Syrah bætir við rauðum berjum, pipar og hita. Vínið er stórt og áfengt. Vel neysluhæft en mun vaxa með 2-3 ára geymslu. Kostar 3.320 krónur

Frekari upplýsingar

Ljósmyndarar

Teiknarar