Ragnar Stefánsson - Prepared-verkefnið

Ragnar Stefánsson - Prepared-verkefnið

Kaupa Í körfu

ALÞJÓÐLEGA Prepared-verkefnið um Suðurlandsskjálftana er formlega sett af stað með ráðstefnu á Hótel Loftleiðum í dag en vinnufundir fóru fram í gær og verður fram haldið á morgun. Megintilgangur verkefnisins er að hagnýta reynsluna af Suðurlandsskjálftunum 17. og 21. júní árið 2000 til að geta dregið úr hættu af jarðskjálftum og þróað aðferðir til að spá betur fyrir um slíkar náttúruhamfarir. Evrópusambandið styrkir verkefnið um rúmar 90 milljónir króna og næstu tvö árin munu 14 rannsóknarstofnanir í Evrópu taka þátt í því. Þar af eru fjórar hér á landi, þ.e. Veðurstofan, sem sér um heildarskipulag og yfirstjórn verkefnisins, Norræna eldfjallastöðin, Raunvísindastofnun Háskóla Íslands og Verkfræðistofnun Háskóla Íslands. Aðrir þátttakendur eru frá Svíþjóð, Skotlandi, Þýskalandi, Frakklandi, Ítalíu og Sviss. Er þetta með stærstu rannsóknarverkefnum á sviði jarðeðlisvísinda sem Íslendingar hafa stjórnað. Um 30 vísindamenn, innlendir og erlendir, taka þátt í Prepared og koma saman í Reykjavík þessa dagana. MYNDATEXTI: Ragnar Stefánsson ásamt nokkrum af þeim vísindamönnum sem komnir eru til landsins til að hefja rannsóknarverkefnið um Suðurlandsskjálftana. Auk Íslendinga taka Svíar, Skotar, Frakkar, Þjóðverjar, Ítalir og Svisslendingar þátt í verkefninu, sem styrkt er af ESB.

Frekari upplýsingar

Ljósmyndarar

Teiknarar