Fráskilinn og börnin læra ekki heima

Íslenskur fráskilinn faðir hefur áhyggjur af heimanámi barnanna.
Íslenskur fráskilinn faðir hefur áhyggjur af heimanámi barnanna. mbl.is/Thinkstockphotos

Ragnhildur Birna Hauksdóttir fjölskyldumeðferðarfræðingur svara spurningum lesenda Barna á mbl.is. Hér fær hún spurningu frá íslenskum fráskildum föður. 

Sæl,

Ég er skilin við barnsmóður mína og gerðist það fyrir nokkrum árum. Við erum með sameiginlegt forræði, erum viku og viku með börnin. Málið er að mamma þeirra lætur börnin aldrei læra heima og þetta er orðið þannig að það er ekkert hægt að vinda ofan af þessu hina vikuna. Alveg sama hvað við reynum okkar megin þá gengur ekkert. Skólinn er búinn að tala við hana og fleira í þeim dúr en það fær engan hljómgrunn. Það er ekki hægt að láta níu og 11 ára börn bera fulla ábyrgð á sér. Hvað leggur þú til að ég geri?

Kveðja, pabbinn                  

Ragnhildur Birna Hauksdóttir fjölskyldumeðferðarfræðingur.
Ragnhildur Birna Hauksdóttir fjölskyldumeðferðarfræðingur.

Sæll og þakkir fyrir bréfið þitt. Það er margt sem þarf að samræma þegar börn eiga tvö heimili. Ef fullorðna fólkið getur átt í góðu samstarfi getur þetta fyrirkomulag verið mjög styðjandi og uppbyggilegt fyrir börnin. Allir foreldrar gera alltaf sitt besta og allir foreldrar vilja allt það besta fyrir börnin sin, frá því eru fáar undantekningar. Þegar foreldrarnir hafa mjög ólíkar lífsskoðanir eða forgangsraða á ólíkan hátt reynir á að vera lausnamiðuð.

Þú tekur það fram í bréfinu þínu að skólinn hafi rætt við barnsmóður þína án árangurs. Nú veit ég ekki hversu mikið þú hefur rætt við hana um málið en geri ráð fyrir því að þið hafið rætt málið. Ég veit ekki hvað liggur á bak við hjá móðurinni, hvort þetta sé tímaskortur eða að forgangsröðun bitni á börnunum, en þetta þarf að laga. Börnin þurfa að sjálfsögðu að fá stuðning við heimanámið.

Það væri ef til vill byrjun að setjast niður öll saman, þið foreldrarnir og börnin og gætuð skoðað saman hvaða leiðir eru færar til að leysa málið. Þau gætu verið með í skipulagningunni og þið skoðað hvaða dagar og tímar dags myndu henta. Mikilvægast af öllu er að fá samstarfsvilja barnanna sjálfra og athyglin á hvað gæti virkað í stað þess að athyglin sé á það sem ekki hefur gengið hingað til.

Stundum þarf að hugsa út fyrir boxið. Ef til vill væri hægt að setja niður umbunarkerfi til að styðja við börnin í náminu. Með umbunarkerfi geta þau til dæmis safnað límmiðum eða einhverju slíku þegar þau settust niður á heimili móður sinnar og lærðu, hvort sem hún hefði frumkvæðið af því eða ekki. Fyrir fram eruð þið búin að finna út hvaða dagar og tími dags gæti gengið. Þú gætir svo veitt umbunina þegar börnin eru hjá þér til að fylgja málinu eftir og ef til vill hringt í þau á fyrirframákveðnum tímum til að styðja við málið – þetta er ein leið og ætti að ganga ef samstarfsvilji allra er til staðar. Ef samstarfsvilji er ekki hjá einhverjum einum, dregur það úr líkum á að hlutirninr gangi eftir. Fyrir börnin skiptir mestu að það sé sátt á milli foreldranna. Markmiðið þarf að vera að málin séu leyst, það þýðir að millimetralýðræði á ekki alltaf við, þar sem öll verkefni foreldranna þurfa að vera jöfn. Við breytum ekki öðru fullorðnu fólki, en þið gætuð sest reglulega niður og rætt hvernig miðar. Athyglin þarf að vera á velferð barnanna en ekki á hitt foreldrið. Það er því mikilvægt að þú áttir þig á því að þetta fjallar ekki um þig, þið eruð ekki par lengur og gott að minna á að það hjálpar ekki að bregðast við eins og þetta fjalli um þig og barnsmóður þina.

Mig vantar fleiri forsendur til að vita á hvaða stað þú og barnsmóðir þín eru. Ég veit ekki hvað þið eruð búin að prófa og hvernig samskiptum ykkar er háttað. En miðað við það sem ég hef í höndunum og skil bréfið þitt eru þetta mínar ábendingar. Gangi ykkur vel í að styðja við börnin ykkar, það er vilji allra foreldra að börnum þeirra gangi vel, það eru ekki undantekningar þar.

Dregið saman gætu þessir punktar hjálpað.

  • Setjist niður ásamt börnunum og virkjið þeirra samstarfsvilja um að sinna náminu.
  • Finnið hvaða tími hentar best til heimalærdóms á hvoru heimili fyrir sig.
  • Til að styðja við lærdóm á því heimili sem ekki gekk að sinna náminu áður, gæti hentað að setja upp umbunarkerfi sem styður við að börnin setjist niður og læri. Þú gætir fylgt því eftir.
  • Einbeittu þér að lausninni og hafðu athygli á velferð barnanna, ekki festast í að báðir foreldrar geri það sama. Getan og viljinn þurfa að vera á sama stað til að það geti gengið. Það foreldri sem hefur bæði getu og vilja á meðan hitt foreldrið hefur það ekki þarf stundum að nýta þann styrk sinn.
  • Mundu að ágreiningur við barnsmóður þina fjallar ekki um þig.

Kær kveðja, 

Ragnhildur Birna.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Ragnhildi Birnu póst HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda