Íslensk móðir buguð vegna slagsmála

Íslensk móðir er örmagna vegna rifrilda sona hennar tveggja.
Íslensk móðir er örmagna vegna rifrilda sona hennar tveggja. Ljósmynd/ThinkstockPhotos

Ragnhildur Birna Hauksdóttir fjölskyldufræðingur svarar spurningum lesenda. Hér fær hún spurningu frá móður sem hefur áhyggjur. 

Sæl. 

Ég á tvo stráka 14 ára og 6 ára. Þegar þeir koma nálægt hvor öðrum er eins og þriðja heimsstyrjöldin brjótist út! Þeir rífast stöðugt, berja, klípa, bíta og sparka í hvor annan. Þegar maður kemur þreyttur heim eftir vinnu og eldri drengurinn er búinn að loka sig af inni í herbergi er ég hálffegin því þá er friður í húsinu, og það er ekki góð tilfinning að vera „laus“ við annað barnið og fegin að hann sé ekki nálægt. Bílferðir eru líka hræðilegar! Meiri tíminn af ferðinni fer í að reyna að stilla til friðar á milli þeirra og það endar nánast alltaf á að ég eða pabbi þeirra öskrum á þá og þá er friður kannski í 3 mínútur!

Ég er alveg að missa þolinmæðina gagnvart þeim og kvíði fyrir öllum samverustundum með þeim (bílferðir, sumarbústaðaferðir, veislur og svo framvegis). Við höfum margoft rætt þetta við þá og þá sérstaklega við eldri drenginn því maður er að vona að hann reyni að skilja mann, en það skilar engu. Við erum búin að prufa umbunarkerfi, prufa alls konar skemmtilega samveru í von um að skemmtunin fái þá til að umbera hvor annan (keila, spilakvöld, sundferðir) en það er alveg sama hvað við gerum/segjum, þeir eru alltaf hræðilegir saman.

Ertu með einhver ráð fyrir okkur til að reyna að koma á friði og umburðarlyndi á milli þeirra?

Kveðja, bugaða móðirin

Ragnhildur Birna Hauksdóttir.
Ragnhildur Birna Hauksdóttir.

Sæl kæru foreldrar

Mikið skil ég ykkur að vera orðin hálfuppgefin á ástandinu og ég get rétt ímyndað mér spennuna sem ríkir í fjölskyldunni þegar staðan er svona. Ég þekki þetta af eigin reynslu frá því að mín stóru börn voru lítil og veit hversu algengt þetta er. Ég vildi að ég vissi þá það sem ég veit í dag.

Að bregðast við út frá varnarkerfinu

Skoðum málið örlítið nánar. Þegar börn berja, bíta, sparka eða klípa eru þau í varnarkerfinu sínu. Við getum sagt að skriðdýrsheilinn og drifkerfið (sympatyska taugakerfið) sé ráðandi. Þegar það kerfi er ríkjandi breytir það því hvernig heilinn virkar. Þetta er ekki rökhugsunarkerfi. Við tökum ekkert sérstaklega góðar ákvarðanir þegar þetta kerfi er virkt. Við erum í sjálfsbjargarham, bregðumst við og hlustum ekki á ráðleggingar né viljum þýðast þann sem við okkur ræðir. Orð eru sögð sem séð er eftir, lítið hlustað og trúlega meira öskrað.

Hvað kemur varnarkerfinu af stað?

Það eru misjafnir orsakavaldar sem geta kveikt á varnarkerfinu. Streita, skortur á öryggi eða að vera nálægt annarri manneskju með sitt varnarkerfi virkt getur auðveldlega sett einstakling í viðbragð, í sjálfsbjargarham. Hjá barni getur kviknað á varnarkerfinu ef það finnur sig ekki „séð“. Þá á ég við að aðrir sjái ekki þá dásamlegu mannveru sem er á bak við hegðunina, að  það finni að á það sé hlustað með áhuga, það fái tíma og streitulaust umhverfi. Börn eru afar berskjölduð fyrir líðan foreldra sinna og annarra í fjölskyldunni. Þau fara auðveldlega í sinn sjálfsbjargarham ef þau upplifa aðra í fjölskyldunni upplifa kvíða, reiði eða mikla streitu.

Vítahringur

Það getur myndast ótrúlega öflugur vítahringur í fjölskyldu þegar varnarkerfið er oft í gangi og getan til að umbera hvert annað fer minnkandi. Stundum þarf aðeins að horfa á hvert annað til að kveikja á varnarkerfinu og dýrið er laust. Það má líkja þessu við að bolta sé kastað á milli (erfiðar tilfinningar) og það er alltaf einhver sem grípur (bregst við). Augnaráð, tónn í röddinni, atgervi. Ótrúlegustu hlutir geta komið því af stað að aðili sé farinn að bregðast við.

Vítahringur rofinn

Þegar við erum í jafnvægi og uppfull af andlegri næringu höfum við þol fyrir mótlæti, við höfum stjórn á tilfinningum okkar, getum frestað umbun og höfum eitthvað til að gefa. Hvað lætur okkur líða vel? Hvað nærir okkur? Þetta eru spurningar sem við verðum að kunna svar við þegar við ætlum að rjúfa erfiðan vítahring. Rofið hefst og endar á ykkur foreldrunum. Það er því mikilvægt að þið séuð í góðu jafnvægi svo þið hafið þol fyrir þriðju heimsstyrjöldinni til að þeir hafi í fyrsta lagi séns á að koma sér úr ástandinu. Stundum er það þannig að við þekkjum í raun ekki hvað það er sem gefur okkur andlega næringu og höfum því ekki fyllt á tankinn okkar vellíðan, kærleika og innri ró. Ef við kunnum það ekki, getum við ekki kennt öðrum. Þegar þið fullorðnu eruð í jafnvægi eru meiri líkur á að þið séuð með nægan samstarfsvilja til að vilja stíga inn í aðstæður og hafa á sama tíma tilfinningastjórn.

Samstarfsvilji

Til að breyta hegðun bræðranna (eftir að þið foreldrarnir eruð búin að auka ykkar getu) þarf samstarfsvilja þeirra. Samstarfsvilji verður til að mynda til þegar umbunin felur í sér næringu sem maður sækist eftir. Við myndum trúlega ekki nenna í vinnu ef við fengjum ekki laun. Þú sagðir að þið hafið sett inn umbun sem ekki hafi virkað. Ég hef tröllatrú á umbun en ég veit líka að oft og tíðum er umbunin ekki það sem sóst er eftir. Ef umbunin felur í sér samveru ykkar allra, skoðið þá vel hvort þið séuð mögulega að styrkja erfiðu hegðunina. Umbunin þarf að næra og eins og staðan er í dag get ég ímyndað mér að keiluferð sé ekki endilega næringarmikil, því hún er krefjandi núna eins og þú lýsir, en verður það mögulega seinna þegar búið er að vinna sig þangað. Andleg næring fyrir einn getur verið eitthvað allt annað fyrir annan. Hvað er það í raun sem þeir þurfa? Oft eru það afar einfaldir hlutir og fela á einhvern hátt í sér að vera „séður“.   

Að breyta hegðun

Til að hegðun bræðranna breytist þurfa þeir í fyrsta lagi að vilja það (samstarfsviljinn). Í öðru lagi þurfa þeir að vita hvað þeir eiga að gera í staðinn. Nú skulum við samt átta okkur á því að þegar varnarkerfið er farið af stað, þá er ekki von um miklar breytingar. Þeir þurfa því að læra svolítið á eigin tilfinningar og æfa það hvað þeir ætla að gera. Trúlega þarf að vinna með viðhorf til aðstæðna eða hegðunar annarra. Hugsun setur af stað líðan og þegar við hugsum: „Ohhh, byrjar hann aftur,“ þá kveikir sú hugsun á varnarkerfinu þegar í stað. Slíkar hugsanir eru jafnvel svo sterkar, að það er hægt að kveikja á mikilli reiði, einn í herbergi með hugsuninni einni saman. Að þekkja tilfinningar sínar er grundvallaratriði því þeir þurfa að átta sig á því hvað það er í raun og veru sem gerist. Hvað kveikir á reiðinni? Þetta þurfið þið að hjálpa þeim með. Hafa ber í huga að margt getur haft áhrif eins og svengd, lítill svefn eða eitthvað sem gerðist fyrr um daginn. Skoðið alla þætti sem hafa áhrif: aðdraganda, hegðun, afleiðingar.

AHA

Það er stórt verkefni að hjálpa öðrum að breyta hegðun sinni. Það er sjaldan undantekning á því að foreldrarnir þurfa að byrja á sér. Það þarf að vinna með aðdragandann (það sem gerist á undan) og hegðunina sjálfa (æfa nýju hegðunina og ákveða hvernig hún á að líta út). Það þarf auðvitað ekki að nefna að þið eruð mestu fyrirmyndirnar í hegðun. Að síðustu eru afleiðingarnar, hvað gerist í kjölfarið? Þegar ég tala um umbun á ég ekkert endilega við að barnið fái eitthvað hlutgert fyrir góða hegðun. Passið að styrkja ekki óvart hegðun sem er ekki æskileg, það er mjög auðvelt að detta í þá gryfju. Til dæmis getum við óvart styrkt slæma hegðun með því að gefa barni mikla athygli í kjölfarið, hvort sem athyglin er góð eða slæm.

Aðrir þættir

Að lokum langar mig að nefna að hegðun er margþætt. Þegar okkur líður vel og erum í jafnvægi þá hefur umhverfið minni áhrif á okkur. Það skal því skoðast hvað það er í raun og veru sem veldur spennu hjá bræðrunum. Það geta mögulega verið þættir utan heimilis. Nú er það svo að flest systkini rífast endrum og eins, en það er ekki í lagi að það sé orðin vanahegðun. Hvar er næringarskortur? Er öllum þörfum mætt? Það þarf því stundum að fara í svolítinn rannsóknarleik til að finna út hvað þarf að laga og skapa um leið hjá sér forvitni fyrir mannlegri hegðun í stað þess að dæma hana. Munum, manneskja sem líður vel meiðir ekki. Gangi ykkur vel.  

Kveðja,

Ragnhildur Birna Hauksdóttir fjölskyldufræðingur

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Ragnhildi Birnu póst HÉR. Eins er hægt að panta ráðgjöf hjá henni HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda