Ragnhildur Birna Hauksdóttir fjölskyldufræðingur svarar spurningum lesenda. Hér fær hún spurningu frá móður sem veit ekki alveg í hvorn fótinn hún á að stíga.
Sæl,
Ég var að lesa svar þitt til móður sem fær kvíðahnút þegar sonur hennar hefur samband, því hann ætlar bara að biðja um pening.
Ég er í sömu aðstæðum, nema ég er með son sem ég er að reyna að hjálpa út úr áfengisvanda. Þegar hann dettur í það er það mjög alvarlegt og stendur yfir í margar vikur. Ég er í varnarstöðu allan tímann og er orðin öryrki eftir sex ára baráttu.
Áfengisvandinn stafar af félagsfælni og kvíða og byrjaði þegar hann missti allt í hruninu, parhús, konu, börn og vinnu. Hann er fjórum sinnum búinn að reyna sjálfsmorð, en það byrjaði þegar hann fór fyrst á þunglyndislyf.
Virk neitaði mér um endurhæfingu og þar af leiðandi versnar heilsa mín stöðugt og ég fæ engan stuðning neins staðar.
Á ég bara að henda honum út á götu til að mér geti batnað?
Kveðja, móðirin
Sæl kæra móðir og takk fyrir bréfið þitt.
Ef við komum okkur strax að efninu þá virðist sem þú lifir lífi þínu í drifkerfinu (sympatíska taugakerfinu) sem er sá hluti ósjálfráða taugakerfisins sem er virkur undir álagi. Þegar þetta kerfi er nánast stöðugt á, getur það haft mjög slæm áhrif á heilsu okkar og það líf sem við lifum. Heilinn er í raun eins og vöðvi og breytist í samræmi við það sem við æfum. Ég vildi byrja á að koma þessu á framfæri því að þessu sögðu er augljóst að það sem þú ert að gera núna er skaðlegt fyrir þig og þína heilsu og jafnframt hefur það ekki verið gagnlegt fyrir son þinn. Hugsanir þínar og líðan í dag og síðastliðin ár vinna gegn þér.
Þegar hjálpin er ekki að hjálpa
Móðurhjartað er fullt af kærleika til barna sinna, sama hversu gömul þau verða. Móðir mín er komin yfir nírætt og les enn yfir systur minni á sjötugsaldri að klæða sig betur í kuldanum, muna að hvíla sig og svo framvegis. Eins og þú segir í bréfi þínu þá er fullorðinn sonur þinn að kljást við fíkn – alkóhólisma. Þú vilt honum allt það besta en forsendur sambands ykkar eru litaðar af fíkninni. Þú tekur mögulega á þig þá ábyrgð að halda honum á réttri braut, á þinn kostnað og mögulega hans því á sama tíma nær hann ekki að tengjast algerlega sínum eigin vanmætti og sínum eigin styrk, sem hvort tveggja er nauðsynlegt til að ná bata. Það sem þú ert að gera fyrir son þinn er svo eðlilegt því það er ekkert eins sárt og að sjá þann sem við elskum þjást. Hins vegar sé ég þig svolítið fyrir mér eins og eins manns björgunarsveit, með það eitt að markmiði að vera í viðbragðsstöðu ef eitthvað gerist, svona eins og gert er þegar alvarleg hætta er á ferð í samfélaginu okkar. Björgunarsveitin verður með tímanum þreytt og þá er að sjálfsögðu skipt um fólk í brúnni. Ég held að þú vitir það innst í hjarta þínu að hjálpin þín er ekki alltaf að hjálpa. Sektarkenndin getur byrgt þér sýn en til þess að eyða sektarkenndinni og sefa stöðugt virkt drifkerfi þarftu að einbeita þér að þér og þinni velferð, þá koma réttu svörin til þin.
Hvar á ég að byrja?
Ég vona að þessir punktar hjálpi þér af stað í þinni vegferð kæra móðir. Ef þú vilt fá leiðbeiningar um öndunaræfingar, hugleiðslu eða annað því tengt geturðu fundið mikið á netinu auk þess sem þú getur skrifað mér á vitund12@gmail.com og ég get gefið þér nánari leiðbeiningar þar að lútandi.
Samtök sem hægt er að leita til, ykkur að kostnaðarlausu: ALANON, AA, CODA, Hugarafl, Lotushús og Pieta-samtökin svo einhver séu nefnd.
Gangi þér vel og kærleikskveðja,
Ragnhildur Birna Hauksdóttir fjölskyldufræðingur.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Ragnhildi Birnu spurningu HÉR.