„Allflestir foreldrar þekkja þarfir barna og vita hvers ung börn þarfnast til að geta þroskast á heilbrigðan hátt. Skilaboð foreldra til barna felast í orðum, nærveru, atgervi, augnaráði og fleiri þáttum. Það er ekki til uppskrift að hinu fullkomna en skilaboð sem eru til þess fallin að mæta þörfum ungra barna gætu verið,“ segir Ragnhildur Birna Hauksdóttir fjölskyldufræðingur í sínum nýjasta pistli:
• Ég mun skapa þér öryggi
• Ég sé þig
• Ég gef þér athygli og tíma með gleði
• Þarfir þinar eru mér mikilvægar
• Ég elska þig
• Ég er hér fyrir þig
Skilnaður foreldra getur mögulega haft þau áhrif að hinir fullorðnu eiga fullt í fangi með að mæta eigin þörfum og geta þeirra til að mæta þörfum barna skerðist, að minnsta kosti tímabundið. Ef börn fá ekki þörfum mætt til lengri tíma geta þau þróað með sér falskt sjálf og ákveðin aftenging á sér stað.
Barnið fer að aðlaga sig foreldrum og umhverfi í stað þess að vaxa í tengslum við eigin kjarna. Ég þekki af eigin raun hvernig það er að missa tímabundið getu til að mæta þörfum barna minna vegna streitu og álags í kjölfar skilnaðar. Það tók tíma að ná fullri getu á nýjan leik.
Einn mikilvægasti þáttur til að mæta eigin þörfum sem leiðir af sér vöxt til að mæta þörfum barna okkar er mínu mati að hægja á lífinu tímabundið. Það er tilhneiging okkar að auka hraða og finna utan við okkur það sem okkur skortir þegar ákveðin þroskakreppa á sér stað. Það lengir oft ferlið því við endum alltaf heima – í okkar eigin ranni fyrr eða síðar. Ef þú ert í þroskakreppu á einhvern hátt eru hér ráð mín til þín:
• Hægðu á lífinu um stundarsakir
• Æfðu öndun á þann hátt að þú dýpkir andardráttinn eins oft og þú getur
• Iðkaðu þakklæti fyrir þann stað sem þú ert á þá stundina
• Aðgreindu muninn á löngunum og þörfum í þínu eigin lífi. Það er auðvelt að rugla þessu tvennu saman
• Oft koma fram gömul áföll þegar fólk gengur í gegnum þroskakreppu. Gefðu þér tíma til að skoða þau með einhverjum sem þú treystir
• Oft verða breytingar á því fólki sem þú umgengst
Sumir fara – aðrir koma. Leyfðu því að gerast, það er eðlilegur þáttur í ferlinu.